Þórsarar héldu haus gegn Keflvíkingum

Tobin Carberry, Þór Þorlákshöfn, sækir að körfu Keflavíkur en Amin …
Tobin Carberry, Þór Þorlákshöfn, sækir að körfu Keflavíkur en Amin Stevens er til varnar. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Þórsarar frá Þorlákshöfn unnu Keflavík 74:71 í síðasta leik 2. umferðar Domino's-deildar karla í körfubolta í kvöld. Liðin mættust í hörkuleik í Þorlákshöfn.

Leikurinn var jafn allan tímann og liðin skiptust á að gera áhlaup. Heilt yfir voru heimamenn þó frískari. Þeir leiddu 40:30 í hálfleik og voru einfaldlega sterkari á lokakaflanum.

Á síðustu mínútunni önduðu Keflvíkingar hressilega ofan í hálsmálið á Þórsurum en heimamenn héldu haus, þó tæpt væri. Þó að Keflvíkingar eigi eftir að fínpússa sóknarleikinn þá var varnarleikur Þórsara var góður og Tobin Carberry var öflugur fyrir heimamenn í sókninni.

Carberry skoraði 30 stig fyrir Þórsara og Ólafur Helgi Jónsson 11. Hjá Keflavík var Amin Stevens bestur með 22 stig og 12 fráköst. Magnús Már Traustason skoraði 13 stig og Guðmundur Jónsson 12, eins og Hörður Axel Vilbergsson.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

40. Leik lokið, lokatölur 74:71. Þórsarar voru betri á lokakaflanum og Carberry fór langt með að klára leikinn fyrir þá af vítalínunni með tveimur vítaskotum þegar 17 sekúndur voru eftir, 73:67. Hlutirnir gerðust hratt í kjölfarið og Keflvíkingar klóruðu í bakkann í næstu sóknum. Þórsarar voru hins vegar komnir í bónus og Carberry hélt áfram að setja niður vítin. Þórsarar köstuðu boltanum frá sér þegar 2,2 sekúndur voru eftir á klukkunni en Keflvíkingar voru klaufar og misstu boltann aftur. Lokatölur 74:71.

38. Leikurinn virðist vera að falla með Þórsurum á lokakaflanum. Staðan 71:66 þegar ein og hálf mínúta er eftir. Keflvíkingar hafa ekki verið að fá mikið frá dómurunum undanfarnar mínútur og hafa eitthvað til síns máls.

35. Sex stig í röð frá Keflvíkingum og þeir komast yfir, 63:64. Davíð Arnar Ágústsson svarar með gríðarlega mikilvægum þrist fyrir Þórsara, 66:64.

33. Það er allt á suðupunkti hér í Þorlákshöfn. Keflvíkingar komust yfir í upphafi leikhlutans en 55:58 en Þórsarar svöruðu með átta stigum í röð og leiða nú 63:58.

30. Þriðja leikhluta lokið. Keflvíkingar gerðu áhlaup í lokin þar sem þeim tókst að minnka muninn niður í tvö stig, 55:53. Það hefur ekki farið mikið fyrir gæðunum í þessum leikhluta en meira fyrir baráttunni. Það kveikir í áhorfendum þannig að stemmningin er að verða nokkuð góð hérna í Þorlákshöfn. Útlit fyrir spennandi lokaleikhluta.

26. Fjörugar upphafsmínútur í seinni hálfleik. Keflavík byrjaði af krafti í vörninni en þá hefur vantað flæði í sóknarleiknum. Þórsarar hafa náð að verja forskotið. Staðan er 51:42.

20. Hálfleikur Þórsarar leiða 40:30 í hálfleik eftir að hafa gert 14:2 áhlaup undir lok leikhlutans. Keflavík skoraði ekki körfu á fjögurra mínútna kafla. Emil Karel Einarsson lokaði leikhlutanum með frábærum þrist fyrir Þórsara og fékk svo annað tækifæri á lokasekúndunni en skotið geigaði. Tobin Carberry er stigahæstur Þórsara með 15 stig en Amin Stevens hefur skorað 12 stig fyrir Keflavík.

17. Þrír frábærir þristar í röð frá Þórsurum. Fyrst Magnús Breki Þórðason og svo tveir í röð frá Ólafi Helga Jónssyni. Keflvíkingar taka leikhlé í stöðunni 35:28.

16. Hvorugu liðinu hefur tekist að slíta sig frá hinu. Þórsarar eru skrefinu á undan í upphafi 2. leikhluta en Keflvíkingar hafa sýnt fína takta síðustu mínútur með bæði Amin Stevens og Reggie Dupree inni á vellinum. Staðan 26:28.

10. Allt í járnum eftir fyrsta leikhluta. Keflvíkingar byrjuðu betur en Þórsarar komust yfir þegar leið á 1. leikhlutann. Staðan 18:17 að honum loknum. Keflvíkingar hafa verið að fá dæmdar á sig villur og þurfa að vera skynsamari í vörninni.

6. Lítið skorað í upphafi leiks en Keflvíkingar hafa verið að hitta betur. Voru komnir í 5:8 þegar Tobin Carberry skoraði glæsilega körfu fyrir Þór eftir gegnumbrot og fékk vítaskot að auki. Jafnaði 8:8.

1. Leikurinn er hafinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert