Höttur og Valur áfram á sigurbraut

Mirko Stefán Virijevic var stigahæstur hjá Hetti í gærkvöld.
Mirko Stefán Virijevic var stigahæstur hjá Hetti í gærkvöld. Ljósmynd/Atli Berg Kárason

Fjórir leikir fóru fram í 1. deild karla í körfuknattleik í gærkvöldi. Höttur heldur sigurgöngu sinni áfram og er með fullt hús stiga eftir þrjá leiki líkt og Valur eftir tvo leiki.

Höttur átti ekki í teljandi vandræðum með Hamar þegar liðin mættust í Hveragerði. Jafnræði var í fyrri hálfleik en eftir hlé sigu gestirnir fram úr og uppskáru sigur 87:60. Mirko Stefan Virijevic var þeirra stigahæstur með 31 stig en hjá heimamönnum skoraði Örn Sigurðarson 20 stig. Höttur er með fullt hús á toppnum eftir þrjá leiki en Hamar er með tvö stig eftir tvo leiki.

Valur vann Breiðablik, 105:96, þar sem Ilugi Steingrímsson skoraði 30 stig og tók 12 fráköst. Fyrir Blika var Tyrone Wayne Garland frábær, en hann skoraði 43 stig. Það dugði þó ekki til. Blikar töpuðu þar með sínum fyrsta leik, eru með fjögur stig eftir þrjá leiki í fjórða sætinu. Valur hefur unnið fyrstu tvo leiki sína og er í öðru sæti.

Fjölnir vann stórsigur á Ármanni í Grafarvoginum. Heimamenn settu tóninn strax í fyrsta leikhluta, unnu hann 29:6, og fóru að lokum með öruggan sigur af hólmi 117:53. Collin Pryor var þeirra stigahæstur með 24 stig og 10 fráköst en hjá Ármanni skoraði Dagur Hrafn Pálsson 14 stig.

Fjölnir er í þriðja sæti með fjögur stig eftir þrjá leiki líkt en Ármann er án sigurs eftir þrjá leiki. Þá vann FSu sigur á Vestra, 78:68, og er með fjögur stig eftir þrjá leiki en Vestri hefur tapað öllum þremur leikjum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert