Wade naut augnabliksins í botn

Dwyane Wade gladdi áhorfendur í Chicago í nótt.
Dwyane Wade gladdi áhorfendur í Chicago í nótt. AFP

„Ég er búinn að bíða eftir þessu augnabliki mjög lengi,“ sagði Dwyane Wade sem í nótt lék sinn fyrsta heimaleik sem leikmaður Chicago Bulls og átti stóran þátt í 105:99-sigri á Boston Celtics í NBA-deildinni í körfubolta.

Wade er fæddur og uppalinn í Robbins í Illinois-fylki, og má segja að hann hafi haldið heim þegar hann skipti yfir til Chicago frá Miami Heat í sumar eftir 13 ára veru hjá Miami. Hann skoraði 22 stig, tók sex fráköst og átti fimm stoðsendingar í fyrsta heimaleiknum í nótt og gladdi áhorfendur í góðum sigri.

„Ég veit að þetta var augljóslega mjög sérstakt fyrir fjölskylduna mína, sem var hérna á leiknum. Þau hafa eins og ég beðið eftir þessu lengi. Ég þakkaði Guði bara fyrir að gefa mér þetta tækifæri, til að gera þessa hluti og eiga þennan feril sem ég hef átt. Og fyrir að geta upplifað draum sem ég átti,“ sagði Wade.

Chicago náði 14 stiga forskoti í lokafjórðungnum en Boston hleypti spennu í leikinn á ný og náði að minnka muninn í 99:97, en komst ekki nær. Jimmy Butler setti þá niður tvö vítaskot en hann var stigahæstur hjá Chicago með 24 stig. Isaiah Thomas var atkvæðamestur hjá Boston með 25 stig.

Úrslit næturinnar:
Atlanta - Washington 114:99
Chicago - Boston 105:99
Sacramento - San Antonio 94:102
Portland - LA Clippers 106:114

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert