Slæm byrjun varð okkur að falli

Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, á hliðarlínunni í leik liðsins …
Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, á hliðarlínunni í leik liðsins gegn Stjörnunni í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við byrjuðum leikinn afar illa og náðum ekki að koma okkur almennilega inn í leikinn eftir það. Við gáfumst hins vegar ekki upp og ég var ánægður með baráttu liðsins, ef frá er talinn fyrsti leikhluti leiksins,“ sagði Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, í samtali við mbl.is eftir 75:64 tap liðsins gegn Stjörnunni í níundu umferð Dominos-deildar karla í körfubolta í kvöld. 

Grindavík hafði borið sigur úr býtum í síðustu fjórum leikjum liðsins áður en liðið laut í lægra haldi í kvöld. Jóhann Þór sagði Grindvíkinga lítið vera að pæla í töflunni á þessum tímapunkti. Grindavík er eins og sakir standa í þriðja til fjórða sæti deildarinnar með 12 stig. 

„Við erum bara að vinna í ákveðnum hlutum í leik liðsins og erum voða lítið að pæla í hvar liðið er statt í töfluröðinni þessa stundina. Mér fannst við geta bætt fullt af hlutum þrátt fyrir að hafa náð góðu skriði í deildinni. Við erum bara í gömlu klisjunni, það er að taka einn leik fyrir í einu. Það er hörkuleikur fram undan eftir helgi og nú förum við að undirbúa þann leik,“ sagði Jóhann Þór um framhaldið hjá Grindavík. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert