Dramatískur Stjörnusigur

Hlynur Bæringsson verst á Ásvöllum í kvöld.
Hlynur Bæringsson verst á Ásvöllum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg
Stjarnan jafnaði Tindastól og KR á toppi Dominos deildar karla í körfubolta, með 70:67 sigri á Haukum á Ásvöllum í kvöld.

Haukar fóru betur af stað og náðu fljótlega í 12:4 en Sherod Nig­el Wright byrjaði sérstaklega vel. Sóknarleikur Stjörnunnar var hvergi nærri eins góður og hann getur verið og var mikið um tapaða bolta og slök skot. Staðan eftir 1. leikhluta var 18:9, Haukum í vil.

Leikur Stjörnunnar batnaði í 2. leikhluta þó þeir hafi ekki verið að spila sinn besta leik. Justin Shouse, Hlynur Bæringsson og Marvin Valdimarsson komust meira inn í leikinn. Haukar voru hins vegar að hitta ágætlega og héldu í forskotið. Staðan í hálfleik var 38:34. Stjörnumenn fóru betur af stað í seinni hálfleik og náðu þeir fljótlega að jafna í 47:47 en staðan fyrir síðasta leikhlutann var 54:54 og stefndi í æsispennandi 4. leikhluta.

Sú varð svo sannarlega raunin og var jafnt, nánast á öllum tölum í fjórðungnum. Þegar að ein mínúta var eftir af leiknum skoraði Justin Shouse frábæra þriggja stiga körfu og kom Stjörnunni í 68:65. Haukar náðu ekki að svara því og varð sætur Stjörnusigur því raunin.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

40. Staðan er 70:67 fyrir Stjörnuna. Eftir æsispennandi lokamínútur eru það Stjörnumenn sem landa sigrinum og jafna þar með KR og Tindastól á toppi deildarinnar.

39. Staðan er 68:65 fyrir Stjörnuna. Justin Shouse! Hann er búinn að hafa hægt um sig í leiknum en hann hendir niður þrist þegar að rúm mínúta er eftir og kemur Stjörnunni þrem stigum eftir. Hvað gera Haukar núna?

35. Staðan er 63:61 fyrir Hauka. Nánast jafnt á öllum tölum í 4. leikhluta. Gríðarlega spennandi lokamínútur framundan.

30. Staðan er 54:54. Haukur Óskarsson er kominn með fimm villur og verður hann ekkert með í 4. leikhluta. Stjarnan komst í 4:0 en þess fyrir utan eru þeir búnir að vera undir allan leikinn. Þeir neituðu hins vegar að gefast upp og komust yfir um tíma en Haukar náðu að jafna aftur og stefnir því í æsispennandi 4. leikhluta.

25. Staðan er 43:42 fyrir Hauka. Stjörnumenn með fínt áhlaup og er leikurinn orðinn gríðarlega spennandi. Aðeins fimm leikmenn eru búnir að skora hjá gestunum en stigaskor þeirra er mjög jafnt. Hlynur Bærings er stigahæstur með 11 en Sherod Wright er með 18 hjá Haukum.

20. Staðan er 40:34 fyrir Hauka. Stjörnumenn eru komnir meira inn í leikinn en Haukar halda forystunni. Stefnir í spennandi seinni hálfleik. Sóknarleikur Stjörnunnar er að batna og Sherrod Wright, besti maður 1. leikhluta fór stigalaus í gegnum 2. leikhluta.

10. Staðan er 18:9 fyrir Hauka.

Haukar byrja leikinn betur og eru níu stigum yfir eftir 1. leikhluta. Leikurinn hefur einkennst af mörgum töpuðum boltum og er sóknarleikur Stjörnunnar, sérstaklega, langt frá sínu besta.

5. Staðan er 12:4 fyrir Hauka.

Heimamenn byrja betur og Sherod Nigel Wright er í miklu stuði og er kominn með sjö stig. Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar er ekki sáttur og tekur leikhlé.

1. Leikurinn er hafinn.

0. Lýsingin verður uppfærð jafnóðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert