Durant fór illa með gömlu félagana

Kevin Durant og Russell Westbrook voru í sviðsljósinu í nótt.
Kevin Durant og Russell Westbrook voru í sviðsljósinu í nótt. AFP

Kevin Durant átti frábæran leik gegn sínum gömlu félögum í Oklahoma City Thunder þegar Golden State Warriors unnu slag þessara liða í NBA-deildinni í körfubolta í nótt, 121:100.

Durant skoraði 40 stig, fleiri en í nokkrum leik á tímabilinu, og hefur þar með skorað 79 stig í leikjunum tveimur við Oklahoma í vetur. Þá tók hann 12 fráköst í nótt. Stephen Curry bætti við 24 stigum og átti átta stoðsendingar.

Hjá Oklahoma hélt Russel Westbrook áfram að bæta við þrennusafnið sitt en hann skoraði 27 stig, tók 15 fráköst og átti 13 stoðsendingar. Westbrook hitti hins vegar aðeins úr 8 af 23 skotum sínum utan af velli, en úr 10 af 11 vítum.

Golden State er langefst í vesturdeildinni með 36 sigra og 6 töp, en næsta lið er San Antonio Spurs með 32 sigra og 9 töp. Oklahoma er í 7. sæti og á góðri leið í úrslitakeppnina, en liðið er með 25 sigra og 19 töp.

Úrslit næturinnar:
Philadelphia - Toronto 94:89
Washington - Memphis 104:101
Charlotte - Portland 107:85
Boston - New York 106:117
New Orleans - Orlando 118:98
Houston - Milwaukee 111:92
Detroit - Atlanta 118:95
Golden State - Oklahoma 121:100
Sacramento - Indiana 100:106

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert