Vonandi verð ég áfram hjá ÍR

Quincy Hankins-Cole í baráttunni við Hlyn Bæringsson.
Quincy Hankins-Cole í baráttunni við Hlyn Bæringsson. mbl.is/Árni Sæberg

Quincy Hankins-Cole, leikmaður ÍR, var að sjálfsögðu svekktur eftir 75:72 tap gegn Stjörnunni í Garðabænum í kvöld. ÍR er komið í sumarfrí eftir 3:0 tap í einvíginu, sem var hluti af 8-liða úrslitum Dominos-deildarinnar í körfubolta. 

Hankins-Cole segir að ÍR hefði getað unnið alla leikina í einvíginu. 

„Það voru örfá atriði í hverjum leik sem skildu liðin að. Í dag voru það nokkur skot, nokkrar villur og nokkrir 50/50 boltar sem við töpuðum. Þeir fóru mikið á vítalínuna undir lokin og við náðum ekki að jafna okkur á því.“

„Við lögðum okkur alla fram og þetta er ótrúlega lítið sem skilur liðin að í hverjum leik. Við fáum tækifæri til að jafna en þá klikkum við á skoti eða missum boltann. Við hefðum getað unnið alla þrjá leikina og því er þetta mjög svekkjandi.“

Þessi skemmtilegi leikmaður var oftar en ekki á móti Hlyni Bæringssyni í einvíginu og hafði hann gaman af því að kljást við landsliðsfyrirliðann. 

„Það var æðislegt að spila á móti honum. Hann er svipað stór og ég, ásamt því að hann er mjög sterkur, þetta var skemmtileg áskorun. Vonandi fæ ég tækifæri til að spila á móti honum aftur.“

Undirritaður átti erfitt með að heyra hvað Cole sagði, þar sem stuðningsmenn ÍR voru mjög háværir meðan á viðtalinu stóð. Hann er að sjálfsögðu ánægður með stuðninginn og hefur hann áhuga á að vera áfram í Breiðholtinu. 

„Þeir styðja okkur sama hvort við vinnum eða töpum, þess vegna eru þeir bestu stuðningsmenn deildarinnar og við kunnum að meta stuðninginn.“

„Vonandi verð ég áfram í ÍR. Það væri æðislegt að geta farið skrefinu lengra á næstu leiktíð. Við erum með ungt lið og það að komast í úrslitakeppnina var vel gert,“ sagði Quincy Hankins-Cole. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert