Gríska undrið fór á kostum

Grikkinn öflugi Giannis Antetokounmpo hjá Milwaukee Bucks með boltann í …
Grikkinn öflugi Giannis Antetokounmpo hjá Milwaukee Bucks með boltann í leiknum í kvöld. AFP

Óvænt úrslit urðu strax í öðrum leiknum í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfuknattleik í kvöld þegar Milwaukee Bucks sótti heim Toronto Raptors til Kanada og vann þar sannfærandi sigur, 97:83.

Gríska undrið, eins og Grikkinn stóri Giannis Antetokounmpo er oft kallaður eftir frammistöðu sína með Milwaukee, var í lykilhlutverki hjá Milwaukee og skoraði 28 stig, ásamt því að taka átta fráköst í fyrsta leik sínum í úrslitakeppni NBA.

DeMar DeRozan skoraði 27 stig fyrir Toronto og tók 8 fráköst, og Serge Ibaka var með 19 stig og 14 fráköst.

Toronto hafði unnið þrettán af síðustu fimmtán viðureignum liðanna og endaði í þriðja sæti Austurdeildar en Milwaukee í sjötta sæti. Þessar tölur höfðu ekkert að segja í kvöld.

Liðin mætast aftur í Toronto á þriðjudagskvöld en vinna þarf fjóra leiki til að komast í aðra umferð úrslitakeppninnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert