Stórsigur Söndru og samherja

Sandra Lind Þrastardóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Sandra Lind Þrastardóttir í leik með íslenska landsliðinu. mbl.is/Styrmir Kári

Sandra Lind Þrastardóttir, landsliðskona í körfuknattleik, og samherjar hennar í Hørsholm 79ers, unnu ótrúlega stóran sigur á deildarmeisturum Virum, 67:33, í öðrum úrslitaleik liðanna um danska meistaratitilinn í kvöld.

Staðan í hálfleik var 35:13 og Virum náði ekki tveggja stafa tölu í neinum leikhluta nema í þeim þriðja.

Virum, sem vann deildina af talsverðu öryggi, hafði unnið fyrsta leik liðanna á sínum heimavelli, 64:52, þannig að liðin standa nú jöfn en þrjá sigra þarf til að verða danskur meistari.

Sandra lét talsvert til sín taka í kvöld. Hún spilaði í 25 mínútur og hitti úr fimm skotum sínum af sex og gerði 10 stig en auk þess tók hún fimm fráköst og átti tvær stoðsendingar.

Þriðji leikur liðanna fer fram á heimavelli Virum á föstudagskvöldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert