„Langbesti möguleikinn í stöðunni fyrir mig“

Tryggvi Snær Hlinason fer til Spánar.
Tryggvi Snær Hlinason fer til Spánar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Ég held að mér hafi ekki staðið neitt betra til boða en að hefja ferilinn erlendis hjá Spánarmeisturunum,“ sagði Tryggvi Snær Hlinason, landsliðsmaður í körfuknattleik, í samtali við Morgunblaðið í gær. Tryggvi er búinn að semja við Valencia um að ganga í raðir félagsins og heldur utan í haust að landsliðsverkefnum loknum.

Nokkuð er síðan Spánverjarnir sýndu Tryggva fyrst áhuga og hann kíkti á aðstæður hjá félaginu eftir að Þór frá Akureyri féll úr keppni í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins. „Þeir sýndu mér áhuga fyrir löngu síðan og ég hef fylgst með hvernig þeim hefur gengið. Núna vildu þeir klára þetta sem fyrst en ég fékk samninginn á borð til mín fyrir rúmri viku síðan. Þegar ég heimsótti félagið þá hitti ég þjálfarann og spjallaði aðeins við hann. Þá fékk ég að vita hvert mitt hlutverk yrði,“ sagði Tryggvi en hann mun ekki ganga inn í mikilvægt hlutverk hjá liðinu á borð við það sem Jón Arnór Stefánsson var með tímabilið 2015-2016.

„Ég mun æfa með aðalliðinu en spila leiki með b-liðinu þar til ég verð orðinn nógu góður fyrir spænsku deildina. Ég tel vera frábært fyrir mig að geta æft með þeim bestu og fengið að læra af þeim. Erfitt hefði verið að spila enga leiki og þar af leiðandi er gott að fá að spila með b-liðinu sem er í 3. deildinni.“

Jón Arnór áhrifavaldur

Tryggvi á hauk í horni í Jóni Arnóri og segir hann hafa átt hlut að máli. „Jón er ástæða þess að forráðamenn Valencia vita að ég er yfir höfuð til. Jón lét þá vita af mér og hefur ráðlagt mér að fara utan til að spila með betri leikmönnum og þetta er langbesti möguleikinn í stöðunni fyrir mig eins og staðan er í dag,“ sagði miðherjinn sem lauk stúdentsprófi á síðustu önn.

Nánar er rætt við Tryggva í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert