Ísland valtaði yfir Svía og komst áfram

Tryggvi Snær Hlinason, Snjólfur Stefánsson, Ingvi Guðmundsson og Kári Jónsson …
Tryggvi Snær Hlinason, Snjólfur Stefánsson, Ingvi Guðmundsson og Kári Jónsson í leiknum í dag. Ljósmynd/FIBA

Íslenska landsliðið í körfuknattleik skipað leikmönnum 20 ára og yngri fór ansi illa með það sænska í 16-liða úrslitum á Evrópumótinu í Grikklandi í dag og vann ótrúlegan 73:39 sigur. Ísland mætir Ítalíu eða Ísrael í átta liða úrslitum á morgun. 

Sænska liðið byrjaði töluvert betur og komst fljótlega í 14:2. Ísland skoraði hins vegar 16 af næstu 20 stigum leiksins og var staðan því 18:16, Íslandi í vil, eftir fyrsta leikhluta. Eftir það hafði íslenska liðið algjöra yfirburði og bætti jafnt og þétt í forskotið. 

Að lokum munaði 34 stigum á liðunum. Kári Jónsson er búinn að jafna sig á meiðslum sem hann varð fyrir gegn Tyrkjum og var hann stigahæstur í íslenska liðinu með 15 stig. Tryggvi Snær Hlinason skoraði 13 stig og tók auk þess tólf fráköst. Kristinn Pálsson og Breki Gylfason skoruðu tíu stig hvor. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert