Grikkirnir hristu af sér gott áhlaup

Grikkir unnu öruggan sigur á Íslendingum, 90:61, í fyrstu umferð úrslitakeppni Evrópumóts karla í körfuknattleik í Helsinki í dag en þurftu þó að hafa fyrir honum því aðeins fjögur stig skildu liðin að í hálfleik eftir frábæran annan leikhluta íslenska liðsins. Þeir náðu hins vegar að brjóta harða mótspyrnu á bak aftur í seinni hálfleik.

Eftir jafnar upphafsmínútur þar sem íslenska liðið sýndi strax að það ætlaði sér að spila kröftugan varnarleik skildi leiðir eftir að staðan var 9:7. Grikkir breyttu henni í 23:8 og staðan var 26:10 eftir fyrsta leikhluta.

Þegar staðan var orðin 29:10 í upphafi annars hluta benti allt til þess að þetta yrði þægilegur dagur og sigur fyrir gríska liðið. En þá snerist leikurinn gjörsamlega við. Sóknarleikur Íslands hafði verið stirður og hver einasta karfa þurfti gríðarlega fyrirhöfn, en þarna byrjaði allt að rúlla.

Haukur Helgi Pálsson fór fyrir íslenska liðinu sem minnkaði muninn í 32:19 og síðan í 33:31 þegar hálf önnur mínúta var eftir af hálfleiknum. Grikkir voru gjörsamlega slegnir út af laginu, skoruðu ekki í fjórar mínútur á meðan Ísland saxaði á forskotið en staðan var 37:33 í hálfleik. Haukur Helgi var þar kominn með 14 stig en Martin Hermannsson var kominn í villuvandræði snemma.

Grikkir náðu vopnum sínum í hálfleik, mættu vel endurskipulagðir til seinni hálfleiks og skoruðu níu fyrstu stigin, 46:33. Sóknarleikur Íslands datt niður á ný á þessum fyrstu mínútum en liðið vann sig smám saman aftur inn í leikinn eftir að Grikkir höfðu komist í 51:35. Staðan var 61:45 að þriðja hluta loknum.

Haukur Helgi fékk sína fjórðu villu í byrjun síðari hálfleiks og Grikkir komust fljótlega í fyrsta skipti tuttugu stigum yfir. Eftir það var ljóst að þeir myndu sigla sigrinum örugglega í höfn, sem þeir gerðu.

Haukur Helgi Pálsson var langatkvæðamestur og skoraði 21 stig en hann lék nær allan fjórða leikhlutann með fjórar villur á bakinu.

Stig Íslands: Haukur Helgi Pálsson 21, Martin Hermannsson 7, Kristófer Acox 7, Hlynur Bæringsson 7, Jón Arnór Stefánsson 7, Hörður Axel Vilhjálmsson 7, Pavel Ermolinskij 3, Tryggvi Snær Hlinason 2.

Pavel átti flestar stoðsendingar, 5 talsins, og þeir Pavel og Haukur tóku flest fráköst, 4 hvor.

Ísland mætir Póllandi í annarri umferð keppninnar í Helsinki á laugardaginn. Pólverjar töpuðu fyrir Slóveníu, 90:81, í fyrsta leik dagsins en Frakkar og Finnar eigast við klukkan 17.00.

Efstu fjögur liðin í riðlinum komast áfram í 16-liða úrslitin sem verða leikin í Tyrklandi eins og öll útsláttarkeppnin.

Lið Íslands: 1 Martin Hermannsson, 3 Ægir Þór Steinarsson, 6 Kristófer Acox, 8 Hlynur Bæringsson, 9 Jón Arnór Stefánsson, 10 Elvar Már Friðriksson, 13 Hörður Axel Vilhjálmsson, 14 Logi Gunnarsson, 15 Pavel Ermolinskij, 24 Haukur Helgi Pálsson, 34 Tryggvi Snær Hlinason, 88 Brynjar Þór Björnsson.

Lið Grikklands: 8 Nick Calathes, 9 Ioannis Bourousis, 10 Kostas Sloukas, 11 Nikos Pappas, 14 Georgios Papagiannis, 15 Georgios Printezis, 16 Kostas Papanikolaou, 17 Evangelos Mantzaris, 18 Dimitrios Agravanis, 19 Ioannis Patapetrou, 31 Georgios Bogris, 43 Thanasis Antetokounmpo.

Grikkland 90:61 Ísland opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert