Svæsin matareitrun hjá Þór og leik frestað

Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar.
Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Búið er að fresta leik Grindavíkur og Þórs frá Þorlákshöfn í fyrstu umferð Dominos-deildar karla í körfuknattleik sem átti að fara fram í kvöld. Svæsin matareitrun herjar á lið Þórs.

„Við vorum á Spáni í síðustu viku og það kom í ljós í gær að það eru sjö leikmenn sem eru alveg frá, 11 af 14 leikmönnum hafa veikst og búið að staðfesta að þetta er kampýlóbakter-sýking,“ segir Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs, í samtali við mbl.is.

Einar segir að einkennin séu mismikil, en Halldór Garðar Hermannsson hefur til að mynda tvívegis verið lagður inn á sjúkrahús og fengið þar næringu í æð. Hann gæti verið nokkrar vikur að jafna sig.

„Hinir eru sem betur fer flestir að þokast í rétta átt, en í það minnsta sjö sem hefðu ekki getað spilað í dag,“ sagði Einar Árni. Hann segir einkennin hafa komið fram á mismunandi tíma, en Þór vann leik við KR í meistarakeppni KKÍ á sunnudag.

„Það voru tveir sem voru að glíma við veikindi á leiðinni heim frá Spáni, og tveir sem hafa viðurkennt að hafa verið slæmir fyrir KR-leikinn en samt spilað. Það eru 7-8 leikmenn sem hafa verið virkilega veikir og þrír sem tóku dag á dollunni og fengu vægari einkenni,“ segir Einar Árni og ítrekar að málið sé afar vont.

„Þetta er djöfulleg staða. Við vitum að leikurinn þarf að fara fram sem allra fyrst, mögulega á sunnudag eða mánudag eftir heilsufari. Það þýðir mikið álag því við spilum á fimmtudag aftur og á sunndaginn eftir í bikar, svo þetta er ekki kjörstaða,“ segir Einar Árni Jóhannsson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert