Njarðvík með góðan sigur á Stjörnunni

Frá leiknum í Njarðvík í kvöld.
Frá leiknum í Njarðvík í kvöld. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson

Njarðvíkingar unnu sterkan sigur á Stjörnunni í kvöld í Dominos-deild karla í körfubolta. Heimamenn skoruðu 91 stig gegn 81 stig gestanna. Staðan var 54:45 Njarðvíkinga í vil í hálfleik. Njarðvíkingar virkuðu nokkuð sannfærandi í þessum leik en á meðan ákveðið hik á Stjörnumönnum en þó voru aldrei langt undan.  

Heimamenn höfðu frumkvæðið nánast allan leikinn að undanskildum fyrstu mínútunum. Það má segja að sterkur varnarleikur þeirra, liðsbragur og elja leikmanna sem hafi skilað þessum sigri. Undarlegt að segja þetta þegar andstæðingurinn skorar 81 stig.

Stjörnumenn voru án Eysteins Bjarna Ævarsson sem á við meiðsl í kálfa að etja og munar um minna enda verið góður fyrir þá í upphafi móts.  Að auki náði Arnþór Freyr Guðmundsson sér aldrei á strik í þessum leik og því óhætt að segja að Stjörnumenn eiga vissulega inni.

Njarðvíkingar fá hrós fyrir frábæran leik í kvöld. Það skeytti engu hver kom við sögu hjá þeim, allir voru á sömu blaðsíðu og tilbúnir að fórna sér fyrir liðið. Í raun það allra besta sem sést hefur til þessa Njarðvikurliðs í langan tíma. Stóra breytingin á liðinu miðað við síðustu ár eru vissulega þau að það er komin hæð í liðið. Þar ber fyrst að nefna Ragnar Nathanaelson sem spilaði glimmrandi vel í kvöld þrátt fyrir að tölfræðin gefi kannski ekki rétta mynd.

Nærvera Ragnars í teig Njarðvíkinga var hvað eftir annað að breyta skotum Stjörnumanna. Það er svo ekki hægt annað en að minnast á besta leikmann kvöldsins, Terrel Vinson. Terrel setti niður 38 stig og tók 8 fráköst og var gersamlega óstöðvandi og óhætt að segja að þetta er það allra besta sem Njarðvíkinga hafa fengið í stöðugildi kana undir körfunni síðan Rondey Robinson var og hét.

Ef miðað er við frammistöðu kvöldsins þá eru Njarðvíkingar til alls líklegir í vetur og í raun það allra besta sem undirritaður hefur séð frá liðinu í mörg ár. Stjörnumenn komu særðir til leiks í kvöld en notuðu það aldrei sem afsökun. Þeir börðust allt til loka leiks og spiluðu fínan bolta en urðu að lúta í parket fyrir betra liði að þessu sinni. 

Njarðvík 91:81 Stjarnan opna loka
99. mín. skorar
mbl.is