Gaman að koma heim og spila

Hildur Björg Kjartansdóttir og Helena Sverrisdóttir náðu vel saman í …
Hildur Björg Kjartansdóttir og Helena Sverrisdóttir náðu vel saman í leiknum í dag. mbl.is/Stella Andrea

Hildur Björg Kjartansdóttir átti flottan leik þegar íslenska kvennalandsliðið í körfubolta tapaði fyrir Svartfjallalandi í dag. Hildur Björg dró vagninn í sóknarleik íslenska liðsins ásamt Helenu Sverrisdóttur, en Hildur Björg skoraði 23 stig og var stigahæst. Hildur Björg hefur lítið sem ekkert verið með íslenska landsliðinu undanfarin ár en hún styrkir liðið töluvert.

„Við vorum sterkar í fyrri hálfleik en í 3. leikhluta gerðum við mörg mistök og þær refsa okkur með t.d. stigum úr hraðaupphlaupum. Við vorum líka í basli með Jelenu Dubljevic en hún er svakalega góður leikmaður. Mér fannst við gera vel í að stoppa hinar.“

Hildur Björg leikur sem atvinnumaður á Spáni og er klárlega að fara að verða lykilmaður í landsliðinu næsta áratuginn og hugsanlega lengur. „Mér finnst rosalega gaman að geta komið heim og spilað með stelpunum og fyrir framan fjölskyldu og vini,“ sagði Hildur Björg um leikinn í dag.  

Sérstaklega var gaman að sjá samvinnu Hildar Bjargar og Helenu í þessum leik. „Helena er svakalega klár leikmaður sem gott er að spila með. Hún finnur mann alltaf þegar maður er opinn því hún er svo góður sendingamaður.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert