Takmarkanir KKÍ taldar ólöglegar

Breytingar verða gerðar á reglugerð um hlutgengni erlendra leikmanna í …
Breytingar verða gerðar á reglugerð um hlutgengni erlendra leikmanna í leikjum á vegum KKÍ næsta vor. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sendi í dag íslenskum stjórnvöldum ályktun þess efnis að svokölluð 4+1 regla sem er við lýði hjá í leikjum á vegum körfuknattleikssambands Íslands (KKÍ) brjóti í bága við lög um evrópska efnahagssvæðið. Fyrrgreind 4+1 regla kveður á um að liðum er einungis heimilt að hafa einn erlendan leikmann inni á vellinum í einu í mótsleikjum KKÍ í meistaraflokki karla og kvenna. 

For­saga máls­ins er sú að ís­lensk­um stjórn­völd­um barst kvört­un frá ESA þann 6. sept­em­ber árið 2016 þar sem sem seg­ir að brotið sé á EES-samn­ingn­um með 4+1 reglu KKÍ í leikj­um sín­um. Inn­an­rík­is­ráðuneyt­isð svaraði kvört­un ESA, í bréfi sem dag­sett er 25. nóv­em­ber árið 2016, en þar kem­ur fram að mat stjórn­valda sé að kvört­un­inni hafi átt að vísa til Íþrótta- og Ólymp­íu­sam­bands Íslands, ÍSÍ, en ekki til ís­lenskra stjórn­valda þar sem KKÍ sé und­ir hatti ÍSÍ.

Fram kom í svarbréfi ESA dagsettu 21. júní árið 2017 að stofnunin sé ósammála fyrrgreindu mati innanríkisráðuneytisins. Bent er á að ÍSÍ sé að miklu leyti fjár­magnað af ís­lenska rík­inu og því þurfi ríkið einnig að bera ábyrgð á ákvörðunum ÍSÍ og und­ir­sam­banda, í þessu til­viki KKÍ. Íslensk stjórnvöld svöruðu ekki þessu svarbréfi ESA og tóku ekki til frekari varna í málinu og var frestur til þess að skila andmælum liðinn. ESA sendi svo frá sér ályktun í dag. 

„Frjálst flæði vinnuafls er eitt af þeim grundvallaratriðum sem fram kemur í EES-samningnum sem Ísland er aðili að. Íslendingar njóta þeirra réttinda að geta unnið í öðrum aðildarlöndum samningsins án takmarkanna og samkvæmt ákvæðum EES-samningsins ætti þessi réttur að vera gagnkvæmur. Körfuboltamaður frá þeim löndum sem innleitt hafa EES-samninginn ætti því að njóta sömu réttinda og íslenskur körfuboltamaður á íslenskri grundu,“ segir Helga Jónsdóttir, meðlimur í eftirlitsstofnun EFTA til skýringar á ályktun stofnunarinnar.

Reglunum verður breytt næsta vor

Körfuknatt­leiks­sam­band Íslands, KKÍ, tel­ur sig ekki vera að brjóta reglu­gerðir Evr­ópska efna­hags­svæðis­ins eins og ESA, eft­ir­lits­stofn­un EFTA, held­ur fram í form­legu bréfi dag­settu 21. júní síðastliðinn. Stjórn KKÍ telur hins vegar að hagsmunum KKÍ sem og íslenska ríkisins sé betur borgið verði farið að þeim niðurstöðum sem fram koma í ályktun ESA.

„Stjórn KKÍ hefur rætt málið ítarlega og tekið þá ákvörðun að fyrir körfuknattleikshreyfinguna og íslenska ríkið sé best að frá og með keppnistímabilinu 2018/2019 verði spilað samkvæmt þeim reglum sem ESA telur að þurfi að gera með frjálst flæði vinnuafls innan ESB/EFTA svæðisins. Er þetta gert með það í huga að hvorki KKÍ, ÍSÍ né fulltrúar íslenska ríkisins þurfi að setja í málið töluverðan tíma, vinnu og fjármagn.

Ný reglugerð um hlutgengni erlendra leikmanna í körfuknattleik í mótum á vegum KKÍ mun taka gildi frá og með 1.maí 2018. Vinna mun hefjast á næstunni undir verkstjórn stjórnar KKÍ með aðildarfélögum sambandsins um það hvernig reglugerð um hlutgengni erlendra leikmanna í körfuknattleik í mótum á vegum KKÍ verði útfærð.

Stjórn KKÍ ítrekar að KKÍ telur að ekki sé búið að að brjóta lög með þeirri reglu sem verið hefur í gildi á undanförnum árum, en þar sem reglurnar eru óljósar og málsmeðferð mun taka nokkur ár, mikinn tíma og fjármagn telur stjórn KKÍ að best sé að breyta regluverkinu eins og fram kemur hér að ofan. Ákvörðunin er tekin með heildarhagsmuni körfuknattleikshreyfingarinnar og íslenska ríkisins að leiðarljósi,“ segir í yfirlýsingu sem KKÍ sendi frá sér í hádeginu í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert