Aldrei upplifað annað eins

Þórsliðið með magnaða stuðningsmenn sína fyrir aftan.
Þórsliðið með magnaða stuðningsmenn sína fyrir aftan. mbl.is/Óttar Geirsson

„Þetta er gríðarlega svekkjandi. Við ætlum að gera miklu betur en þetta og þetta er ömurlegt,“ sagði sársvekkt Hulda Ósk Bergsteinsdóttir, leikmaður Þórs frá Akureyri, í samtali við mbl.is eftir að liðið tapaði bikarúrslitum gegn Keflavík í kvöld, 89:67.

Keflavík vann fyrsta leikhlutann 26:13 og var Þórsliðið ekki nálægt því að jafna eftir það. „Við fórum yfir það fyrir leik að það þýðir ekkert að fara í eltingarleik við þær. Við þurftum að vera klárar allan tímann. Við lentum í gryfju og komumst ekki upp úr henni,“ útskýrði Hulda.

Á meðan á viðtalinu stóð voru stuðningsmenn Þórsara gríðarlega háværir, eins og þeir voru allan leikinn.

„Þetta var geðveik upplifun, þrátt fyrir tap. Þau eru ótrúleg. Ég hef spilað með fleiri liðum en ég hef aldrei upplifað annað eins. Við vorum að tapa úrslitaleik en samt heyrist miklu hærra í þeim en Keflvíkingunum.

Þau gefa okkur þvílíka orku og kjarkurinn í liðinu okkar kemur frá þeim. Þau koma alla leið frá Akureyri og ég elska þetta lið, þennan bæ og þennan hóp,“ sagði Hulda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert