Keflavík er númer eitt og lífið er geggjað

Keflavík er bikarmeistari árið 2024.
Keflavík er bikarmeistari árið 2024. mbl.is/Óttar Geirsson

„Lífið er geggjað. Keflavík er númer eitt og þetta er frábært,“ sagði Sara Rún Hinriksdóttir, landsliðskona og leikmaður Keflavíkur, í samtali við mbl.is eftir að hún varð bikarmeistari í kvöld.

Keflavík vann öruggan 89:67-sigur á Þór í bikarúrslitum í Laugardalshöll og hafði undirtökin nánast alveg frá byrjun.

„Mér leið vel. Við erum með svo rosalega gott lið og allir geta skorað. Við þurfum að hafa fyrir öllu og allir þurftu að leggja sitt að mörkum í dag. Við vorum mjög flottar í leiknum í dag,“ sagði hún.

Keflavík er með tíu stiga forskot á toppi úrvalsdeildarinnar og nú bikarmeistari. Er liðið það langbesta á landinu í dag.

„Við erum með flottan og samstíga hóp. Það er ekki ein stjarna, heldur margar stjörnur. Við stígum upp í mismunandi leikjum. Stigaskorið er dreift og við erum gott lið,“ útskýrði Sara.

Keflavík varð einnig bikarmeistari í karlaflokki, með sigri á Tindastóli fyrr í dag.

„Við vorum mjög ánægðar fyrir þeirra hönd en svo þurftum við að einbeita okkur að okkar leik. Við náðum í sigur, sem er frábært,“ sagði Sara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert