Láta slæma færð og lokaða vegi ekki stöðva sig

Þór mætir Keflavík í bikarúrslitum.
Þór mætir Keflavík í bikarúrslitum. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta hefur kannski einhver áhrif en við erum helvíti harðir hérna fyrir norðan. Við látum ekkert stoppa okkur,“ sagði Dagur Þór Baldvinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Tindastóls, í samtali við mbl.is um möguleg áhrif slæmrar færðar á mætingu stuðningsmanna Tindastóls á bikarúrslitaleik karlaliðsins við Keflavík klukkan 16 í Laugardalshöll í dag.

Þegar þessi frétt er skrifuð er Holtavörðuheiðin lokuð og færðin á Norðurlandi ekki góð. „Liðið kom suður í gær. Við fengum mokstursbíl á undan okkur og fórum Bröttubrekkuna. Við reddum öllu hér,“ sagði Dagur.

Stefán Þór Pétursson, formaður körfuknattleiksdeildar Þórs frá Akureyri, var á leiðinni upp í rútu á leið til Reykjavíkur þegar mbl.is sló á þráðinn til hans. Þór mætir einnig Keflavík í kvennaflokki. 

Tindastóll fagnar sigrinum á Álftanesi í undanúrslitum.
Tindastóll fagnar sigrinum á Álftanesi í undanúrslitum. mbl.is/Árni Sæberg

„Liðið er búið að vera fyrir sunnan alla vikuna. Ég er að fylgja stuðningsmönnum suður núna. Færðin ætti ekki að hafa mikil áhrif. Það er búið að lofa mér að það verði búið að opna Holtavörðuheiðina um hádegið,“ sagði hann og hélt áfram:

„Við vonum að það gangi eftir, en annars er Öxnadalsheiðin enn opin. Það er enginn bilbugur á okkur. Það voru margir sem fóru í gær, þrátt fyrir leiðinlegt veður. Það eru lausnir en ekki vandamál fyrir norðan. Flestir sem keyptu miða eru í rútu á leiðinni suður,“ sagði Stefán.

Karlaleikur Tindastóls og Keflavíkur hefst klukkan 16 og kvennaleikur Þórs og Keflavíkur klukkan 19. Verða þeir báðir í beinni textalýsingu á mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert