Við gerðum okkur enga greiða

Ingvar Þór Guðjónsson.
Ingvar Þór Guðjónsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta var stressandi undir lokin,“ sagði Ingvar Þór Guðjónsson, þjálfari kvennaliðs Hauka í körfubolta eftir nauman 80:78 sigur á  Stjörnunni á heimavelli í kvöld.

„Leikurinn var í járnum svona fram í leikhlutaskil, þriðja fjórða þá náum við góðu forskoti en seinustu svona sex mínúturnar voru mjög slakar hjá okkur. Þær skoruðu 21:5 á okkur í lokinn og við brugðumst illa við,“ sagði Ingvar í viðtali við mbl.is eftir leikinn sem var mjög jafn undir lokin.

„Við gerðum okkur enga greiða í fjórða leikhluta. Spiluðum illa og vorum að taka slakar ákvarðanir sóknarlega og þær voru að skora ítrekað á okkur og komust allt of auðveldlega á hringinn.“ 

Haukar fóru með tíu stiga forskot inn í fjórða leikhluta eftir sterkan þriðja leikhluta.

„Við vorum að fá stopp, fá góð skot og setja þau niður, komast á hringinn, þetta var samblanda af því. Góður varnarleikur fyrst og fremst sem  opnaði fyrir okkur sóknarlega sem við náðum að halda aðeins áfram inn í fjórða leikhluta en svo kom frost,“ sagði Ingvar.

Staðan er nú 2:1 í einvíginu og næsti leikur á sunnudaginn.

„Auðvitað hef ég trú á mínu liði en við vitum það að það verður hörkuleikur á sunnudaginn. Vonandi mætum við klárar og vonandi getum við farið heim með sigur en við þurfum að eiga toppleik til þess.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert