Jia-you Is-land

Ólafur Ragnar Grímsson fagnar sigrinum á Pólverjum með íslensku handboltamönnunum …
Ólafur Ragnar Grímsson fagnar sigrinum á Pólverjum með íslensku handboltamönnunum í Peking í dag. mbl.is/Brynjar Gauti

Árangur íslenska handboltalandsliðsins á ólympíuleikunum í Peking vekur af einhverjum ástæðum talsverða athygli í Bandaríkjunum þótt fæstir Bandaríkjamenn viti nokkuð um íþróttina. Í dag fjalla tvö af kunnustu blöðum landsins, USA Today og Christian Science Monitor, um íslenskan handbolta á vefsíðum sínum.

Það fyrrnefnda segir m.a. að Íslendingar hafi unnið hug og hjarta kínverskra áhorfenda, sem fylgdust með leik Íslands og Póllands í dag, og þeir hafi hrópað Jia-You (áfram) Is-land af kappi.

Blöðin velta því fyrir sér hvernig Íslendingar fari að þessu í ljósi þess, að þeir séu aðeins rúmlega 300 þúsund talsins, eða álíka margir og íbúar Wilmington í Norður Karólínu.

„Ef byggð yrðu fjögur Fuglshreiður (og Kínverjar væru örugglega til í það ef Íslendingar bæðu þá kurteislega) væri hægt að koma öllum Íslendingum þar fyrir og 64 þúsund manns að auki," segir Christian Science Monitor og vísar þar til ólympíuleikvangsins í Peking.

„Með öðrum orðum: Þegar leikmennirnir 15 í handboltaliðinu fóru til Peking var það 0,005% af þjóðinni," bætir blaðið við.

USA Today ræðir við nokkra af íslensku landsliðsmönnunum, þar á meðal Róbert Gunnarsson, sem segist hafa verið 12 ára þegar Ísland spilaði síðast um sæti í undanúrslitum ólympíuleikanna árið 1992. Þá hafi hann verið í hópi þeirra 80% Íslendinga, sem fylgdust með leikjum liðsins í sjónvarpi.

„Nú er ég sjálfur í liðinu og það er frábært," segir Róbert.

Blaðið ræðir einnig við Björgvin Gústavsson, markvörð, sem það segir hafa varið ótrúlega með höndum og fótum í leiknum við Pólverja. Er Björgvin m.a. spurður hvort íslensku leikmennirnir verði jafn frægir og Björk ef þeir verða ólympíumeistarar.

„Það vona ég," svarar Björgvin.

En á hvernig tónlist hlustar hann?

„Allt nema Björk," svarar Björgvin brosandi og klappar blaðamanninum á bakið. 

Umfjöllun Christian Science Monitor

Umfjöllun USA Today

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert