Bretar súrir út í Kínverja

Ekki verður auðvelt fyrir Breta að bjóða upp á slíka …
Ekki verður auðvelt fyrir Breta að bjóða upp á slíka veislu sem Kínverjar gerðu í Peking. Reuters

Dagblöð í Bretlandi greina frá því að kínverskir miðlar geri lítið úr þætti Breta á lokahátíð Ólympíuleikanna á sunnudaginn var og fá þeir bresku almenna falleinkunn fyrir dapra forsýningu.

Bretar fengu átta mínútur á lokahátíðinni til að taka við Ólympíufánanum og kynna land sitt en næstu leikar fara fram í London 2012.

Þykir sú sýning hjákátleg hjá kínverskum fjölmiðlum og bloggurum og fer það fyrir brjóstið á breskum. Þykir þeim kínversku heldur döpur frammistaða að bjóða upp á Jimmy Page, Leonu Lewis og David Beckham sem skemmtiatriði við hlið glæsilegustu lokahátíðar Ólympíuleika nokkru sinni.

Hafa þeir enda nokkuð til síns máls. Enginn skemmtikraftanna bresku fellur undir að vera sönn stórstjarna í dag. Þvert á móti þykja þeir Page og Beckham börn síns tíma og þó Lewis sé þekkt er hún engin risi á skemmtanasviðinu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert