Rosalega leiðinlegt mál

Julia Efimova varð heimsmeistari heima í Rússlandi, nánar tiltekið í …
Julia Efimova varð heimsmeistari heima í Rússlandi, nánar tiltekið í Kazan, fyrir ári síðan. AFP

Hrafnhildur Lúthersdóttir mun meðal annars þurfa að keppa við rússneska heimsmeistarann Juliu Efimovu, sem á vafasama sögu hvað lyfjamál snertir, um að ná sem bestum árangri í 100 metra bringusundi á Ólympíuleikunum í Ríó.

Lengi vel var útlit fyrir að Efimovu yrði ekki leyft að keppa, og það var raunar ekki ljóst fyrr en rétt áður en leikarnir voru settir að hún yrði með. Hún er ein þeirra rússnesku íþróttamanna sem fallið hafa á lyfjaprófi í gegnum tíðina, og var úrskurðuð í bann af þeim sökum á sínum tíma. Hún var nýbúin að sitja af sér bannið þegar hún varð heimsmeistari í Kazan fyrir ári síðan. Hrafnhildur varð í 6. sæti í því sundi, sem er besti árangur íslenskrar sundkonu á heimsmeistaramóti í 50 metra laug.

Alþjóðaíþróttadómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að láta það bitna á Efimovu nú að hún skyldi hafa fallið á lyfjaprófi, fyrst henni hefði þegar verið refsað fyrir það með dómi.

Þetta er allt mjög grunsamlegt

En þetta er ekki allt, því Efimova var úrskurðuð í bann í byrjun árs vegna neyslu meldóníums, sama efnis og tennisstjarnan Maria Sharapova og fleiri hafa neytt. Efimova losnaði hins vegar úr banninu, alla vega um tíma, vegna óvissu sem ríkir um það hve lengi meldóníum finnst í líkama eftir neyslu. Hún verður því með á Ólympíuleikunum.

„Þetta er svo rosalega leiðinlegt mál. Þó að seinni dómnum hafi verið áfrýjað þá er þetta allt mjög grunsamlegt,“ sagði Hrafnhildur þegar Mbl.is spurði hana út í málið. En líður henni sjálfri eins og að hún hafi lent í 5. sæti á HM, en ekki 6. sæti eins og skráð úrslit sýna, að minnsta kosti í dag?

„Það er alltaf leiðinlegt þegar svona kemur upp. Manneskjan sem varð í 4. sæti missti af tækifærinu til að fara á verðlaunapall. Manneskjan í 2. sæti missti af því að standa efst á honum og heyra þjóðsönginn. Þetta er leiðinlegt, en mér finnst það rétt ákvörðun að taka þá Rússa út sem hafa fallið á lyfjaprófi. Mér finnst ekki rétt að banna þá alla, sumir tóku engan þátt í þessu, og svo má líka benda á Bandaríkjamenn, Kínverja og fleiri sem hafa fallið á lyfjaprófi en eru samt að fara að keppa,“ sagði Hrafnhildur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert