Ólympíumeistari rændur í Ríó

Ryan Lochte undirbýr sig fyrir úrslitasund í 200 metra fjórsundi …
Ryan Lochte undirbýr sig fyrir úrslitasund í 200 metra fjórsundi í Rio. AFP

Bandaríski sundmaðurinn Ryan Lochte sem vann ein gullverðlaun á Ólympíuleikunum sem fram fara í Ríó í Brasilíu þessa dagana var rændur af hópi vopnaðra manna þegar hann var á leið heim úr samkvæmi sem Thiago Pereira, sundmaður frá Brasilíu, hélt í gærkvöldi. 

Lochte tjáði sig um ránið við NBC í gærkvöldi. Ræningjarnir ógnuðu Lochte og þremur félögum hans í bandaríska sundliðinu með hnífum og byssum þegar leigubíll sem þeir voru farþegar í stöðvaði til þess að taka bensín. 

Ræningjarnir hrifsuðu til sín veski Lochte og yfirgáfu svo vettvanginn. Lochte og félagar hans komust sem betur fer ómeiddir úr ráninu, en þeim var sleppt eftir að ræningjarnir höfðu náð veski Lochte. 

Lochte var í sigursveit Bandaríkjanna í 4x200 metra boðsundi á Ólympíuleikunum í Ríó, en hann er næst sigursælasti sundmaðurinn í sögu Ólympíuleikanna á eftir samlanda sínum Michael Phelps. Gullverðlaun Lochte í boðsundinu voru 12. verðlaun hans á Ólympíuleikum, en Phelps hefur hins vegar unnið 28 verðlaun á Ólympíuleikum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert