ÓL í Ríó – dagur 12

Aníta Hinriksdóttir er síðasti keppandi Íslands á Ólympíuleikunum í Ríó.
Aníta Hinriksdóttir er síðasti keppandi Íslands á Ólympíuleikunum í Ríó. mbl.is/Eggert

Aníta Hinriksdóttir er nú sú eina af átta íþróttamönnum Íslands sem á eftir að keppa á Ólympíuleikunum í Ríó. Hún hleypur í undanrásum 800 metra hlaups í dag.

Keppni í undanrásum hefst kl. 13.55 að íslenskum tíma og er áætlað að Aníta hlaupi kl. 14.15, en hún hleypur í 4. riðli af átta.

Það komast tveir keppendur áfram úr hverjum riðlanna átta, og svo átta fljótustu keppendurnir þar á eftir. Því verða alls 24 keppendur í undanúrslitunum, þar sem hlaupið verður í þremur riðlum, um miðnætti annað kvöld.

Aníta mun þurfa frábært hlaup til að komast í undanúrslitin. Íslandsmet hennar, sem hún hefur verið afar nærri að slá í sumar, er 2:00,49 mínútur. Fjórir keppendur í undanrásariðli Anítu hafa hlaupið hraðar á þessu ári og þar af hafa þrjár hlaupið undir tveimur mínútum. Það eru þær Habitam Alemu frá Eþíópíu (1:59,14), Marina Arzamasova frá Hvíta-Rússlandi (1:59,65) og Melissa Bishop frá Kanada, sem hefur hlaupið á 1:57,43 í ár. Christina Hering frá Þýskalandi hefur svo hlaupið á 2:00,37 í ár, en á best 1:59,54. Alls hafa 45 keppenda hlaupið hraðar en Aníta á sínum ferli.

Dagur og Guðmundur í 8-liða úrslitum

Í dag er leikið í 8-liða úrslitum handbolta karla á leikunum. Dagur Sigurðsson og Guðmundur Guðmundsson eru báðir komnir þangað með sín lið. Sveinar Dags í Þýskalandi mæta Katar kl. 16.30, og sveinar Guðmundar mæta Slóveníu kl. 20.

Keppt er um 16 gullverðlaun í Ríó í dag, í eftirtöldum greinum: Frjálsum íþróttum (200 m hlaupi, 100 m grindahlaupi og langstökki kvenna, og 3000 m hindrunarhlaupi karla, badminton, strandblaki, hnefaleikum, hestaíþróttum, siglingum, borðtennis, taekwondo og glímu).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert