Engin þjóð í heiminum með svona hóp

Þórir Hergeirsson fylgist einbeittur með gangi mála í leiknum við …
Þórir Hergeirsson fylgist einbeittur með gangi mála í leiknum við Rússa á Ólympíuleikunum í Ríó í nótt. AFP

„Þetta er svakalega svekkjandi. Ég hef nú bara tapað einum undanúrslitaleik áður sem aðalþjálfari og það var á mínu fyrsta stórmóti, HM í Kína 2009,“ sagði Þórir Hergeirsson, þjálfari Noregs, eftir sárgrætilegt tap gegn Rússlandi í undanúrslitum handbolta kvenna á Ólympíuleikunum í Ríó í nótt.

Rússland vann leikinn 38:37 eftir mikla spennu og þar með er ljóst að Noregur getur ekki varið ólympíumeistaratitil sinn frá því í London 2012. Norðmenn leika við Hollendinga um bronsverðlaunin á laugardag.

„Við byrjuðum vel en svo jafnast leikurinn og þær ná frumkvæðinu. Við vorum ekki að spila nægilega vel varnarlega, markvarslan var ójöfn, og svo vorum við bara eftir á allan leikinn. Við vorum alltaf að elta þær og það kostar krafta,“ sagði Þórir við mbl.is í nótt.

„Þær eru með svakalegan hóp, láta hann bara rúlla og keyra með sama trukki allan tímann. Við erum kannski með svolítið minni breidd, sem kostar okkur, en svo var þetta bara stöngin út í lokin,“ sagði Þórir, og ítrekaði að rússneska landsliðið væri ógnarsterkt:

„Við vissum það alveg fyrir þetta mót hve þetta væri erfitt. Að það yrði erfitt að komast í undanúrslit. Við unnum HM í desember þar sem við lentum í svona jöfnum leikjum, unnum Rúmeníu í framlengingu og Svartfjallaland með einu marki. Þá náðum við að klára þessa leiki, en ekki í dag, gegn besta kvennalandsliði sem sést hefur í langan tíma. Það er engin þjóð í heiminum í dag sem hefur á svona leikmannahópi að skipa,“ sagði Þórir.

Sýna þá einhvern annan karakter en ég þekki

Á meðan að Þórir ræddi við mbl.is reyndu nokkrir leikmanna hans að ræða við fjölmiðla á meðan tárin streymdu niður vanga þeirra. Þær norsku eru vanar því að vinna þá titla sem í boði eru, og eru enn ríkjandi ólympíu-, heims- og Evrópumeistarar. Ekki var annað að sjá en að það yrði afskaplega erfitt að fá leikmenn til að gleyma vonbrigðum næturinnar og koma sér á tærnar fyrir leikinn við Hollendinga um bronsverðlaunin, en Þórir var ekki sammála því:

„Þær sýna þá einhvern annan karakter en ég þekki. Þetta er óvenjulegt fyrir margar þeirra en það eru þessar yngstu kannski sem eru svekktastar. Þær hafa aldrei unnið neitt á Ólympíuleikum en hafa enn verðlaun til að spila um. Það að ná bronsi er mjög sterkur árangur. Aðalmarkmið norska kvennalandsliðsins er að spila um verðlaun á stórmótum, og því markmiði er náð, en auðvitað viljum við vinna. Við elskum að vinna, en þetta verður núna bara reynsla sem mun koma að notum. Ungu stelpurnar hérna eiga eftir að spila á einum eða tvennum Ólympíuleikum í viðbót.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert