Nokkur hundruð tonn á loft

Júlían J. K. Jóhannsson setti meðal annars heimsmet á Reykjavíkurleikunum.
Júlían J. K. Jóhannsson setti meðal annars heimsmet á Reykjavíkurleikunum. mbl.is/Styrmir Kári

„Þetta var alveg frábært mót og ég held trúlega það besta og flottasta sem hefur verið haldið hér á landi. Öll umgjörðin var glæsileg og flottir erlendir keppendur sem mættu til leiks. Svo skemmir auðvitað ekki fyrir að það skuli sett fimm heimsmet,“ sagði Júlían J. K. Jóhannsson kraftlyftingamaður sem setti eitt fimm heimsmeta í lyftingakeppni Reykjavíkurleikanna um helgina.

Júlían, sem er á sínu síðasta ári í U23 ára flokki, setti heimsmet í réttstöðulyftu þegar hann fór upp með 342,5 kíló. „Þetta er eiginlega það mesta sem ég hef tekið í réttstöðulyftu. Ég keppi venjulega með sérstökum útbúnaði en núna notuðum við ekkert þannig og ég hef aldrei lyft meiru án útbúnaðar,“ sagði Júlían um metlyftuna sína.

Í hnébeygju lyfti hann 310 kílóum og 185 í bekkpressu. „Ég þurfti að sigla nokkuð létt í gegnum bekkinn því ég hef verið dálítið meiddur í brjóstkassanum,“ sagði Júlían.

Eins og áður segir er þetta síðasta árið hans í U23 ára flokki og stefnir hann á að ná góðum árangri áður en hann fer upp um flokk. „Ég tek þátt í fleiri mótum í ár en ég hef nokkru sinni gert. Næst er það Evrópumót U23 sem verður haldið á Spáni í apríl, síðan er það Heimsmeistaramótið í Finnlandi í september og síðan er ég að vonast til að komast á Heimsmeistaramótið í opnum flokki í lok árs, en það mót er í Bandaríkjunum. Það þarf ákveðin lágmörk þangað inn og mig vantar aðeins upp á þau, en ég næ því örugglega á næsta móti,“ sagði nýkrýndur heimsmethafi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert