Belginn lagði Gunnar í úrslitaleiknum

Kenzo Bogaerts með verðlaunin í Egilshöll.
Kenzo Bogaerts með verðlaunin í Egilshöll. Ljósmynd/rigbowling.is

Kenzo Bogaerts frá Belgíu sigraði í keilukeppni Reykjavíkurleikanna sem lauk í Egilshöllinni á sunnudaginn. 

Þar vann hann Gunnar Þór Ásgeirsson í hreinum úrslitaleik.

Kenzo varð þriðji í undankeppninni með 1.456 pinna, eða 243 í meðaltal. Sú frammistaða tryggði honum sæti í 16 manna úrslitum þar sem hann vann hina 17 ára gömlu Oliviu Clöru Steinunni Linden. Í 8-manna úrslitum sló hann svo út Andra Frey Jónsson, sigurvegara Reykjavíkurleikanna 2021.

Til úrslita spiluðu Kenzo, Matej Vojkovsky frá Tékklandi, Gunnar Þór Ásgeirsson og Gústaf Smári Björnsson. Fyrirkomulag úrslitanna var þannig að neðsti spilari í hverjum leik dettur úr keppni þar til einn stendur eftir.

Eftir fyrsta leik datt Gústaf Smári úr keppni, eftir annan leik datt Matej úr keppni og spiluðu því Kenzo og Gunnar Þór hreinan úrslitaleik. Kenzo tók fljótt forystuna og lét hana aldrei af hendi og tók m.a. niður gríðarlega erfitt splitt til að halda forystunni undir lok leiksins. Þetta var gríðarlega vel spilað af hálfu Kenzo sem hafði einnig sýnt mikla yfirburði í fyrstu tveimur leikjunum.

Þó enginn íslensku unglinganna hafi komist alla leið í úrslitin er þó ljóst að framtíðin er björt í íslenskri keilu. Hinn 17 ára Mikael Aron Vilhelmsson vann forkeppnina með glæsilegu Íslandsmeti og féll út í 8-manna úrslitum.

Þá var áðurnefnd Olivia Clara Steinunn efst kvenna í mótinu og féll út í 16-manna úrslitum fyrir verðandi sigurvegara. Fjórir til viðbótar af unglingunum komust svo áfram í mótinu en það voru þeir Matthías Leó Sigurðsson, Ásgeir Karl Gústafsson, Tristan Máni Nínuson og Tómas Freyr Garðarsson og af 11 forkeppnum stóðu unglingarnir uppi í efsta sæti í fimm þeirra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert