Laxveiðin á Vesturlandi mjög róleg

Glímt við lax í Efri-Potti í Kjarrá á dögunum, en …
Glímt við lax í Efri-Potti í Kjarrá á dögunum, en þar hefur veiði verið fremur döpur upp á síðkastið vegna vatnsleysis. Erik Kopeling

Veiði í helstu laxveiðiánum á Vesturlandi hefur verið ákaflega róleg að undanförnu eftir mjög fjöruga byrjun.

Að sögn Einars Sigfússonar, sem annast sölu á veiðileyfum í Haffjarðará og Norðurá, eiga árnar á þessu svæði mikið inni því nóg væri af fiski í ánum. Vandamálið væri að ekki hefði rignt á þessu svæði í fimm til sex vikur og gamall snjór væri í fjöllum þannig að árnar væru orðnar súrefnissnauðar sem gerði laxinn áhugalausan um að taka flugur veiðimanna. Þá hefði verið nánast sól og skellibirta upp á hvern einasta dag sem gerði laxinn enn erfiðari viðureignar.

Einar kvaðst vera í sambandi við flesta rekstraraðila laxveiðiáa á þessu svæði og þeim kæmi öllum saman um að nóg væri af laxi í ánum og nokkuð víst að veiðin tæki kipp í næstu rigningartíð.

Einar, sem var staddur við Norðurá, sagði að nokkrir regndropar væru að falla en honum sýndist samkvæmt veðurspánni fyrir næstu daga að það myndi lítið duga til að auka vatnsmagn ánna. Hann sagði að í Norðurá væru rúmlega 900 laxar komnir á land og nóg væri af fiski í ánni en tilfinnanlega vantaði alvörurigningu í dalinn og fram á Holtavörðuheiði.

Spurður um Haffjarðará sagði Einar að þar væri veiðin ágæt og rúmlega 750 laxar komnir á land sem væri heldur meira en á sama tíma í fyrra. Hann sagði að nú væru enskir veiðimenn í ánni sem væru allir komnir vel yfir sjötugt og taka þeir veiðinni mjög rólega og veiði sex til átta klukkutíma á dag. Veiddu þeir á sex stangir og á fyrstu vaktinni hefðu þeir tekið 16 laxa, á annarri vaktinni 18 og á þeirri þriðju 22.  Þetta væri mjög fín veiði og samkvæmt þessu væri veiðin frekar að aukast en hitt. 

Laxi hefur verið landað úr Efri-Potti í Kjarrá.
Laxi hefur verið landað úr Efri-Potti í Kjarrá. Erik Kopeling
mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Richard Jewell 9. ágúst 9.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert