Dræm veiði í Soginu í sumar

Friðleifur Ingvar Friðriksson með stóra laxinn við Neðri Garð í …
Friðleifur Ingvar Friðriksson með stóra laxinn við Neðri Garð í Sogi undir lok veiðitímabilsins. Jón Þ. Einarsson

Veiði lauk undir lok september í Soginu í Árnessýslu og samkvæmt þeim upplýsingum sem þegar liggja fyrir þá var veiði þar afskaplega döpur í sumar.

Laxveiðin þar er ekki leigð út sameiginlega og leigir hver landeigandi út fyrir sig og er Stangveiðifélag Reykjavíkur leigutaki að þremur þessara svæða, en það eru Alviðra, Bíldsfell og Þrastalundur. Stangveiðifélagið Lax-á annast hins vegar sölu veiðileyfa fyrir lönd Ásgarðs og Syðri Brúar.

Fram kemur á vef Stangveiðifélags Reykjavíkur að 68 laxar hafi veiðst á Bíldsfellssvæðinu í sumar og kom stærsti laxinn á land þann 23. september þegar árnefnd var að loka ánni. Reyndist það vera 101 cm hængur sem veiddist á spón í Neðri Garði og var honum sleppt aftur að viðureign lokinni. Þá veiddust 74 silungar, en svæðið hefur í gegnum tíðina verið þekkt fyrir góða bleikjuveiði. 

Óhætt er að segja að þetta sé afar döpur veiði á Bíldsfelli, en veiði hefur mest farið þar í 480 laxa sumarið 2010 og meðalveiði síðustu 10 árin verið rétt undir 250 löxum á þrjár stangir.

Þá kemur fram að veiðibókin í Alviðru sé týnd og þess vegna séu litlar upplýsingar til um veiði þar í sumar, en verið sé að vinna í því að afla þeirra.  Samkvæmt upplýsingum frá veiðimanni sem þar var staddur í lok ágúst voru aðeins örfáir fiskar komnir þar á land.

Þá kemur fram að á svæðinu við Þrastarlund, sem er á  bakkanum á móti Alviðru, hafi fimm laxar veiðst í sumar og voru þeir allir drepnir. Enginn silungur var skráður þar í veiðibókina.

Ekki hafa borist nákvæmar upplýsingar um veiðina í Ásgarði og á Syðri Brú í sumar, en samkvæmt upplýsingum veiðimanna sem þar höfðu verið í sumar var veiðin þar almennt léleg.  Í ágúst fékk þó veiðimaður einn ágætisveiði á Landaklöppinni við Syðri Brú þegar hann veiddi fjóra laxa á einum degi og þar af eina 101 cm hrygnu sem tók litla svarta Frances-flugu númer 16.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Richard Jewell 9. ágúst 9.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert