Lífleg sjóbirtingsveiði í Skaftafellssýslu

Fallegur sjóbirtingur úr ármótum Laxár/Brúarár við Djúpá. Lómagnúpur í fjarska.
Fallegur sjóbirtingur úr ármótum Laxár/Brúarár við Djúpá. Lómagnúpur í fjarska. ÞGÞ

Samkvæmt upplýsingum frá sjóbirtingssvæðum í Vestur-Skaftafellssýslu hefur veiði almennt verið mjög góð þar í sumar og haust en á flestum stöðum er veitt til 20. október.

Fram kom í samræðum við Hörð Hauksson á Kálfafellskoti, sem annast sölu veiðileyfa í Laxá og Brúará í Fljótshverfi, að rúmlega 80 birtingar hafi komið á land á tvær stangir. Veiðitíminn þar er stuttur og byrjar fyrstu dagana í september og aðeins veitt fjóra til fimm daga í viku. Mjög góð veiði væri búin að vera að undanförnu, en mikil flóð eftir rigningartíð hafa þó sett aðeins strik í reikninginn.

Mikill fiskur væri í ánum sem virðast þar með vera að ná sér að fullu eftir Grímsvatnagosið árið 2010 þegar gríðarlegt öskufall fór illa með þær og hafði áhrif á veiði þar í nokkur ár. Venju samkvæmt veiðist best í ármótunum við Garðinn svokallaða, en þar renna árnar saman síðasta spottann út í jökulána Djúpá og veiðist jafnan best þar í skilunum. Hörður sagði að veitt yrði til 20. október enda gengur sjóbirtingur lengi fram á haustið og nokkrir dagar væru óseldir.

Að sögn Ragnars Johnsen á Hörgslandi hefur veiðin í Vatnamótunum í Skaftá verið með því besta í sumar og haust. Um er að ræða eitt þekktasta sjóbirtingssvæði landsins en þar renna í Skaftá bergvatnsárnar Fossálar, Geirlandsá (Breiðabakkakvísl) og Hörgsá, ásamt fleiri lækjum. Sagði Ragnar að vel á annað þúsund sjóbirtingar væru komnir á land frá því í apríl. Tveir veiðimenn sem veiddu nú síðast voru með 63 birtinga eftir einn og hálfan dag. Mikið hafi verið af óvanalega fallegum geldfiski í bland við hefðbundna stóra hrygningarfiska. 

Fram kom að Ragnar muni taka við umsjón með svokölluðum Mávabótaálum og Hólmasvæði frá með næsta vori, en það er talsvert fyrir neðan Vatnamótin og þar byrjar sjóbirtingur yfirleitt að veiðast fyrst eftir að hann gengur upp í Skaftá. Lítið hafi verið veitt þar í sumar en í sumar hefur verið unnið við að bæta aðstöðu og hafa menn skroppið í veiði á milli verka og yfirleitt gert ágæta veiði.

Þessu til viðbótar hafa borist almennt góðar fréttir af veiðisvæðum Stangveiðifélags Keflavíkur sem leigir þar nokkur svæði. 

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Richard Jewell 9. ágúst 9.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert