Hús Magasin vettvangur jóladagatals DR

Hús Magasin du Nord við Kongens Nytorv.
Hús Magasin du Nord við Kongens Nytorv. mbl.is/Ómar

Danskir fjölmiðlar segja, að danska ríkissjónvarpið, DR, hafi gefið Magasin verslunarkeðjunni stóra jólagjöf en jóladagatal DR, sjónvarpsþættir fyrir börn í desember þar sem dagarnir fram til jóla eru taldir niður, gerast m.a í og undir stórverslun Magasin við Kongens Nytorv í Kaupmannahöfn og því sést hús eða vörumerki Magasin í öllum þáttunum 24.

Að sögn blaðsins Politiken fjallar jóladagatalið þetta árið um að hús Magasin sé byggt á sama stað og Absalon biskup byggði hús í upphafi byggðar í Kaupmannahöfn. Þættirnir heita Absalons Hemmelighed og fjalla um leit að leyndarmáli, sem Absalon á að hafa skilið eftir í húsi sínu. Talið er að um 900 þúsund manns fylgist daglega með sjónvarpsþáttunum.

Politiken segir að Magasin hafi ekki tekið þátt í gerð sjónvarpsþáttanna eða greitt DR fyrir. En haft er eftir Mikael Ostenfeld, sérfræðingi hjá birtingarhúsinu Carat, að þættirnir séu milljóna virði fyrir Magasin.

„Allar verslanir vilja tengjast jólunum og það á ekki síst við um Magasin, sem selur jólagjafir," segir hann. Ostenfeld áætlar, að hefði Magasin keypt auglýsingatíma hjá DR, sem svarar til þess tíma sem fjallað er um verslunina í þáttunum, hefði verðmiðinn verið 7-10 milljónir danskra króna, jafnvirði 90-125 milljóna íslenskra króna.

Maya Illsøe, höfundur þáttanna, segir að hún hafi talið mikilvægt að fá að nota hús Magasin í þáttunum því í raun hafi Absalon byggt hús á sama stað. Hún segir að yfirmenn DR hafi óttast að þættirnir yrðu einskonar óbein auglýsing fyrir Magasin en á endanum hafi þeir fallist á að húsið væri mikilvægt í sögunni.

Magasin er í eigu I-Holding, sem aftur er í eigu Baugs Group, B2B fjárfestingarfélags og fleiri íslenskra fjárfesta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK