Viðskiptahallinn ofmetinn um tugi milljarða?

Er viðskiptahallinn ofmetinn um tugi milljarða?
Er viðskiptahallinn ofmetinn um tugi milljarða?

Gunnlaugur Briem, viðskiptafræðingur hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna, bendir á það í grein í Morgunblaðinu í dag, að afrakstur erlendrar verðbréfaeignar virðist viðvarandi vanmetinn þegar lagt er mat á viðskiptahalla.

Segir Gunnlaugur, að vanmat á afrakstri erlendu verðbréfaeignarinnar í heild telji líklega í tugum milljarða króna og ef tekið væri tillit til þessa myndi áætlaður 22,4% viðskiptahalli á síðasta ári minnka um mörg prósent, svo mörg að einhverjir kynnu að endurskoða mat sitt á áhættu íslenska hagkerfisins.

Gunnlaugur segir, að íslenskir lífeyrissjóðir og aðrir innlendir fjárfestar hafi á liðnum árum byggt upp talsverða eign í erlendum hlutabréfum. Á sama tíma hafi eign erlendra aðila í íslenskum fyrirtækjum farið vaxandi, sem skilgreind sé sem skuld og því dregin frá þegar rætt er um nettóeign.

Gunnlaugur segir að samtals hafi nettó hlutabréfaeign íslenska þjóðarbúsins numið 788,4 milljörðum króna í lok september sl. en fjármálaráðuneytið áætli að landsframleiðslan 2006 hafi verið 1038 milljarðar. Því sé ljóst að eignin sé hátt hlutfall af landsframleiðslu.

Þá segir Gunnlaugur, að skýrslugerð um viðskiptajöfnuð sé í samræmi við staðal Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF), en þar sé ekki tekið tillit til gengishagnaðar eða -taps af verðbréfaviðskiptum við útreikning á þáttatekjum í greiðslujöfnuði, hvort sem um er að ræða verðbréfafjárfestingu eða beina fjárfestingu.

„Afrakstur erlendrar verðbréfaeignar virðist því viðvarandi vanmetinn svo verulegu máli skiptir í mati á viðskiptahalla. (...) Það er sérstaklega bagalegt að ekki sé tekið tillit til afraksturs erlendrar hlutabréfaeignar lífeyrissjóðanna við mat á viðskiptahalla þjóðarinnar, en arður af hlutabréfaeigninni hefur meiri þýðingu fyrir íslenska skýrslugerð um utanríkisviðskipti heldur en hjá öðrum þjóðum vegna stærra sparnaðarhlutfalls sem hlutfall af landsframleiðslu í lífeyrissjóðum hérlendis en erlendis. Sérstaklega þarf að hafa þetta í huga nú þegar hvað mest er rætt um mikinn viðskiptahalla á árinu 2006. Vanmat á afrakstri erlendu verðbréfaeignarinnar í heild telur líklega í tugum milljarða króna," segir Gunnlaugur.

Samkvæmt áætlun fjármálaráðuneytis var viðskiptahallinn 249,6 milljarðar á síðasta ári eða 22,4% af landsframleiðslu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK