Hægt að sexfalda raforkusölu frá jarðvarmavirkjunum í Bandaríkjunum

Orkusvið Glitnis telur að miklir möguleikar séu fólgnir í jarðvarmavirkjunum.
Orkusvið Glitnis telur að miklir möguleikar séu fólgnir í jarðvarmavirkjunum.
Eftir Guðrúnu Hálfdánardóttur guna@mbl.is
Unnt er að sexfalda raforkusölu frá jarðvarmavirkjunum í Bandaríkjunum úr 1,8 milljörðum Bandaríkjadala í 11 milljarða Bandaríkjadala á ári. Mögulegt væri að jarðvarmavirkjanir gætu annað 20% af orkuþörf Kaliforníu, 60% orkuþarfar Nevada og 30% raforkuþarfar Hawaii. Þetta kom fram í máli Árna Magnússonar, framkvæmdastjóra Orkusviðs Glitnis, á blaðamannafundi í New York í dag.

Glitnir kynnti á blaðamannafundinum skýrslu sem sérfræðingar bankans hafa unnið um bandaríska jarðvarmamarkaðinn, sem Árni segir þann stærsta í heiminum. Með bandaríska dagblaðinu Wall Street Journal fylgdi í dag blað frá Glitni um möguleika jarðvarmavirkjana.

Glitnir áætlar að fjárfestingaþörf sé um 9,5 milljarðar Bandaríkjadala í þeim nýju verkefnum sem þegar eru í undirbúningi á sviði jarðvarmanýtingar í Bandaríkjunum og ætla megi að ljúki á næstu fimm árum. Samanlögð fjárfestingarþörf, á sviði jarðvarmanýtingar í Bandaríkjunum til ársins 2025, er talin vera 39,4 milljarðar dala.

Síðar í dag mun Glitnir opna skrifstofu í New York þar sem mikil áhersla verður lögð á sjálfbæra orkunýtingu. Nánar verður greint frá ráðstefnu sem Glitnir stendur fyrir í dag um sjálfbæra orkunotkun í New York hér á Fréttavef Morgunblaðsins sem og opnun skrifstofu Glitnis í New York.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK