Lausafjárkreppan markar tímamót segir forstöðumaður Greiningardeildar LÍ

Björn Rúnar Guðmundsson
Björn Rúnar Guðmundsson

Lausafjárkreppan sem nú geisar á erlendum fjármálamörkuðum markar endalok óvenjulegs tímabils í fjármálasögunni. Þetta kom fram í máli Björns Rúnars Guðmundsonar, forstöðumanns Greiningardeildar Landsbanka Íslands á fundi í morgun þar sem ný hagspá bankans var kynnt.

Ótrygg húsnæðislán í Bandaríkjunum voru dropinn sem fyllti mælinn, að sögn Björns Rúnars og telur hann líklegt að margt fleira eigi eftir að koma í ljós. Fleiri gætu verið í svipuðum vanda og Northern Rock bankinn í Bretlandi, segir Björn Rúnar. „Þar til þessari óvissu er eytt verður áfram órói á fjármálamörkuðum," sagði Björn Rúnar.

Fjármálaheimurinn er nú að takast á við afleiðingar þeirrar ofurslökunar í peningamálum sem hófst fyrir fimm árum eða svo. Boltinn er nú hjá Seðlabönkum vestanhafs og í Evrópu, að því er fram kom í máli Björns Rúnars á fundinum.

Sagði hann að enginn hafi búist við því í júní, að vextir yrðu lækkaðir fljótlega í Bandaríkjunum þar sem flestir gerðu ráð fyrir áframhaldandi uppgangi í efnahagslífinu. Nú hefur bandaríski seðlabankinn þegar lækkað daglánavexti og allar líkur eru á að tilkynnt verði um vaxtalækkun síðar í dag, að sögn Björn Rúnars.

Á tímum sem þessum kemur vel í ljós hversu vandasamt getur verið að finna hina „réttu" peningastefnu en viðbrögð seðlabanka í heiminum hafa fyrst og fremst snúist um að auka aðgengi fjármálastofnana að skammtímafjármagni.

Björn Rúnar sagði að talsverður munur sé á þeim erfiðleikum sem íslensku fjármálastofnanirnar gengu í gegnum í fyrra er sjónir fjármálaheimsins beindust að íslensku efnahagslífi. Þá hafi kreppan einungis snúið að Íslandi en nú snúi þetta að öllum. Sagðist hann þakka fyrir, að Íslendingar gengu í gegnum þetta ástand í fyrra þar sem íslensku bankarnir hafi undirbúið sig vel hvað varðar endurfjármögnun í kjölfar umræðunnar í fyrra.

Ekki mikið svigrúm til mistaka
Sjálfstæð peningastefna í litlu (mjög litlu) opnu (mjög opnu) hagkerfi með óvenjulegt fyrirkomulag á fjármálamarkaði gefur ekki mikið svigrúm til mistaka, segir Björn Rúnar. Segir hann að það fyrirkomulag sem Íslendingar hafi komið sér upp varðandi stjórn peningamála hafi ekki stuðlað að þeim stöðugleika sem vonast var til í upphafi.

Óæskilegar gengissveiflur gera það markmið, sem Íslendingar hafa um efnahagslegan stöðugleika, að engu. Of mikill óstöðugleiki er í genginu sem hefur áhrif á hagskerfið í heild. „Við verðum að íhuga í fullri alvöru hvort við viljum fara í gegnum næstu uppsveiflu á þennan hátt," sagði Björn Rúnar og bætti við, að hann teldi að viðbrögð Seðlabanka Íslands við húsnæðisverðbólgunni hafi verið allt of hörð. Mikilvægt sé að greina á milli almennra verðhækkana og varanlegrar hliðrunar einstakra þátta eins og húsnæðisverðs.

Þá sagði hann, að aukin framleiðslugeta vegna aðflutts vinnuafls og fjármagns hafi verið vanmetin stórlega að mati Greiningardeildar Landsbankans. Þá virðist hann þrýstingur á launakostnað minni en sýndist í fyrstu.

> Seðlabankinn fastur í vítahring

Í ljósi þessara þátta verður betur skiljanlegt, að undirliggjandi verðbólga er ekki meiri en raun ber vitni við núverandi aðstæður. Eins og staðan er í dag er Seðlabankinn fastur í vítahring gengisóstöðugleika og hárra vaxta, sagði Björn Rúnar í erindi sínu. Hann segir að vera megi að lausnin sé nær en virðist við fyrstu sýn. Óróleikinn á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hefur þegar komið krónunni í námunda við jafnvægisgildi og Landsbankinn telji að hún eigi ekki eftir að styrkjast á næstunni heldur fremur veikjast. Dregið hefur mjög úr áhættusækni erlendra fjárfesta þannig að breytingar á vöxtum hafi sennilega minni áhrif núna en oft áður.

Segir hann sterkari stöðu bankanna einnig draga úr neikvæðum áhrifum gengislækkunar. Allt þetta bjóði í raun upp á það að lækka vexti með skipulögum hætti án þess að það leiði til of mikillar lækkunar krónunnar. Segir Björn Rúnar að lítil hætta sé á erfiðleikum á gjaldeyrismarkaði og það sé því tækifæri til staðar fyrir Seðlabankann til þess að lækka vexti og það tækifæri eigi bankinn að nýta sér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK