Samtök iðnaðarins segja vaxtahækkun misráðna

Samtök iðnaðarins segja, að boðuð hækkun stýrivaxta Seðlabanka Íslands um 0,45 prósentur sé misráðin og muni til skamms tíma stuðla að óraunhæfri styrkingu á gengi krónunnar. Hún auki til lengri tíma litið hættu á snörpu gengisfalli með verðbólguskoti og kaupmáttarsamdrætti.

Þá segja samtökin, að hækkunin ýti undir flótta fyrirtækja frá háum vöxtum, sterku og óstöðugu gengi. Hún muni enn frekar auka umsvif erlendra spákaupmanna, sem hafi fært mikið fé inn í hagkerfið, þó ekki til að fjárfesta í íslenskum atvinnurekstri heldur til að hirða auðfengin vaxtamun. Þeir geti horfið án fyrirvara.

Verðbólga mælist nú 4,5% en án fasteignaverðs er hún aðeins 1,3%.

„Seðlabankinn tekur fasteignaverð með inn í verðbólgumarkmiðið og hækkar vexti þrátt fyrir þá staðreynd að verð á vörum og þjónustu er lítið sem ekkert að hækka. Stýrivextir Seðlabankans hafa hvorki teljandi áhrif á langtímavexti íbúðalána né á verðþróun fasteigna frekar en heimsmarkaðsverð olíu og hveitis. Þannig berst Seðlabankinn við fasteignaverðbólgu með bitlausu vopni. Raunar hefur hækkun stýrivaxta þau áhrif til skamms tíma að auka einkaneyslu, þvert á markmið bankans, enda gjaldeyrir á útsölu.

Samtök iðnaðarins deila hins vegar þeirri skoðun Seðlabankans að það sé mikilvægt fyrir almenna hagsæld í landinu og starfsskilyrði iðnaðar til langs tíma að koma hér á stöðugleika. Það næst hins vegar ekki með beitingu núverandi peningastefnu. Vaxtastefnan veldur skaðlegum gengissveiflum og styrkir gengi krónunnar meira en fær staðist til lengdar. Vaxtahækkun í dag er því misráðin og ekki til þess fallin að auka tiltrú á íslenskt efnahagslíf," segir í yfirlýsingu SI.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK