Kallar eftir skýrri stefnu stjórnvalda

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Erlendur Hjaltason, formaður Viðskiptaráðs, á …
Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Erlendur Hjaltason, formaður Viðskiptaráðs, á viðskiptaþingi í dag. Árvakur/Golli

Formaður Viðskiptaráðs, Erlendur Hjaltason, segir að stjórnvöld verði að vera skýr þegar kemur að ákvörðun um hvort taka eigi upp evru á Íslandi.

„Sitji stjórnvöld með hendur í skauti er hætt við því að evra verði tekin upp með óskipulögðum og óformlegum hætti. Þar með væri tækifæri stjórnvalda til að stýra atburðarrásinni glatað og þau gætu neyðst til að fylgja þróuninni eftir í stað þess að leiða hana. "

Betur borgið með evru
Erlendur sagði að ýmislegt virðist benda til þess að hag Íslendinga verði betur borgið til framtíðar með upptöku evru.

„Ákveði stjórnvöld að íslenska hagkerfinu sé betur borgið með upptöku evru þarf að vega og meta þá kosti sem í boði eru. Að því gefnu að tvíhliða samkomulag við Seðlabanka Evrópu sé ekki raunhæfur möguleiki af pólitískum ástæðum, stendur valið í raun á milli þess að hér verði evra tekin upp einhliða eða í gegnum myntbandalag Evrópu. Aðrar leiðir sem kynntar hafa verið eru að öllum líkindum einhvers konar millistig að öðru hvoru markinu," sagði Erlendur.

Nauðsynlegt að snúa bökum saman
Formaður Viðskiptaráðs gerði umrót á fjármálamörkuðum að umræðuefni í ræðu sinni en segir að grunnafkoma bankanna stenst fyllilega samanburð við aðra norræna banka og ekki verður betur séð en tekjur af hlutabréfastöðum og fjárfestingabankastarfsemi séu viðbót fremur en grunnþáttur í arðsemi þeirra.

Sagði hann að íslenskir bankar séu vel í stakk búnir til að mæta þrengingum á mörkuðum líkt og þeim sem standa yfir í dag. „Í stuttu máli má segja að flestir þeir þættir sem sættu gagnrýni vorið 2006 hafi verið lagfærðir, sem endurspeglar sveigjanleika og lipurð íslenskra fjármálafyrirtækja. Fyrir vikið hefur staða íslensku bankanna verið mun sterkari í yfirstandandi lausafjárþurrð. "

„Íslenskir bankar bera nú áhættuálag í fjármögnun sinni sem virðist fremur hafa með þjóðerni þeirra að gera en styrkleika og rekstrarhorfur. Það er alvarlegt mál að fyrirtæki beri skaða af íslenskum uppruna sínum og undirstrikar nauðsyn þess að halda uppi stöðugu flæði upplýsinga um fjármála- og efnahagslíf okkar á erlendri grundu. Því er nú nauðsynlegra en nokkru sinni fyrr að aðilar íslensks viðskiptalífs snúi bökum saman og vinni að eflingu trúverðugleika fjármálakerfisins og viðskiptalífsins í heild," segir Erlendur Hjaltason.

Ójafnvægi rakið til umsvifa hins opinbera
Erlendur sagði, að frá upptöku verðbólgumarkmiðs árið 2001 megi að mestu rekja ójafnvægi í efnahagsmálum til ákvarðana og umsvifa hins opinbera, sem ekki hefur dregið saman seglin í kjölfar hagvaxtarhvetjandi aðgerða.

„Það má í raun segja að með aðgerðum sínum hafi stjórnvöld frekar kynt undir hagsveiflunni en dregið úr henni. Þarna liggur einnig rót umræðu um stöðu íslensku krónunnar sem nú er hávær í samfélaginu og má segja að gjaldmiðillin hafi verið gerður að blóraböggli fyrir hnökra í hagstjórn hér síðustu árin.

Það er því ljóst að aukinn efnahagslegur stöðugleiki er grundvallarforsenda þess að íslenska krónan eigi sér von um framtíð. Til að svo megi vera, er brýnt að stjórnvöld grípi til markvissra aðgerða til að styrkja hagstjórn og auka á trúverðugleika peningastefnunnar, segir Erlendur.

Nauðsynlegt er að almenn starfsemi hins opinbera styðji betur við peningastefnu Seðlabanka Íslands og að kerfisbundið sé unnið gegn sveiflum með fjármálastjórn hins opinbera. Þetta verður meðal annars gert með því að gæta betur að trúverðugleika útgjaldaramma ríkissjóðs, sem hefur á undanförnum árum haft tilhneigingu til óhóflegrar útþenslu. Þetta kom fram í máli Erlends Hjaltasonar, formanns Viðskiptaráðs Íslands á Viðskiptaþingi í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK