Stýrivaxtalækkun frestast

Davíð Oddsson Seðlabankastjóri
Davíð Oddsson Seðlabankastjóri Ómar Óskarsson

Horfur eru á að verðbólga verði töluverð fram á næsta ár en hjaðni síðan hratt. Verðbólgumarkmiðið næst á þeim tíma sem spáð var í apríl með því að vextir verði lækkaðir síðar en áður var talið, að sögn Davíðs Oddssonar, formanns bankaráðs Seðlabanka Íslands.

Er nú talið að þeir fari ekki að lækka fyrr en ái næsta ári, að sögn Arnórs Sighvatssonar, er hann kynnti nýja útgáfu Peningamála fyrir fréttamönnum. 

Óvissa við mat á þjóðhags- og verðbólguhorfum endurspeglast í óvissu um hvernig stýrivaxtaferil þarf til þess að ná verðbólgumarkmiðinu innan viðunandi tíma. Verði efnahagsframvindan eða miðlun peningastefnunnar með öðrum hætti en gert er ráð fyrir í grunnspánni þurfa stýrivextir að taka mið af því, samkvæmt Peningamálum.

Vaxtalækkunarferli hefst um hálfu ári síðar en áætlað var

„ Þar sem verðbólguhorfur hafa versnað nokkuð frá aprílspánni, sérstaklega til skamms tíma, þarf að halda vöxtum háum lengur en gert var ráð fyrir í síðustu spá.

Stýrivextir verða að meðaltali 15,5% fram að fyrsta fjórðungi 2009 er þeir taka smám saman að lækka. Vaxtalækkunarferlið hefst því um hálfu ári síðar en gert var ráð fyrir í apríl.

Samkvæmt spánni nú haldast stýrivextir háir fram á árið 2010, en á seinni hluta þess árs eru þeir komnir í u.þ.b. hlutlausa stöðu. Í ljósi áhættumats grunnspárinnar eru hins vegar taldar töluverðar líkur á að hækka þurfi vexti enn frekar."

Í fráviksdæmi í  Peningamálum eru metnar afleiðingar þess að launþegar sætti sig ekki við skerðingu kaupmáttar og reyni að fá kaupmáttarskerðinguna bætta. „Vegna þess að horfur eru á að meiri launahækkun þurfi til þess að bæta kaupmáttarskerðinguna en útlit var fyrir í apríl verður verðbólguvandinn langdregnari en þá var talið líklegt og hærri stýrivexti þarf til þess að vega á móti. Til þess að ná verðbólgumarkmiðinu innan spátímans gæti þurft að hækka stýrivexti í hátt í 17% á fyrsta ársfjórðungi 2009 og lækkun gæti vart hafist fyrr en á þriðja fjórðungi þess árs," að því er segir í Peningamálum.

Ef ekki tekst að tryggja skilvirkni peninga-, skuldabréfa- og gjaldeyrismarkaða getur niðurstaðan orðið hvort tveggja, meiri efnahagssamdráttur og aukin verðbólga. Erfiðleikar bankanna á erlendum lánsfjármörkuðum birtast t.d. í útlánatregðu innanlands, sem ýtir undir samdrátt og gengislækkun, sem eykur verðbólgu, að því er fram kemur í Peningamálum.

Ekki tilgangslaust að breyta stýrivöxtum

„Gengislækkunina í mars og verðbólguna sem fylgdi í kjölfarið má líklega að töluverðu leyti rekja til markaðsbresta, þótt hinn undirliggjandi vandi sé mikill viðskiptahalli og erfiðleikar fjármálafyrirtækja.

Áhrif stýrivaxta á markaði verða minni, sem m.a. birtast í sveiflukenndri ávöxtun skuldabréfa og óstöðugu gengi. Það vekur þá spurningu hvort tilgangslaust sé að breyta stýrivöxtum þegar verðbólguhorfur versna af ástæðum sem rekja má til markaðsbresta. Svo er alls ekki.

Lítill vafi er á því að ákveðin viðbrögð Seðlabankans í mars juku traust á krónunni og stöðvuðu, a.m.k. um sinn, vítahring verðlagshækkana og gengis breytinga. Veik áhrif stýrivaxta eru ekki rök fyrir minni viðbrögðum peningastefnu heldur þvert á móti," samkvæmt Peningamálum.

Hafi stýrivextirnir t.d. lítil áhrif á gengi krónunnar og verðbólga eykst þess vegna tímabundið meira en ella, án þess að við verði ráðið, þarf hærri stýrivexti en ella til þess að tryggja að raunstýrivextir haldist jákvæðir. Jákvæðir raunstýrivextir eru forsenda þess að stöðugleiki ríki í gengismálum og verðbólguvæntingar hafi næga kjölfestu þannig að komist verði hjá umtalsverðum annarrar umferðar áhrifum, samkvæmt Peningamálum.

Misskilningur um náttúruleg takmörk falli gjaldmiðla

Að koma í veg fyrir að skammtímaraunvextir lækki óhóflega þegar gjaldeyrismarkaðurinn glímir við markaðsbresti af þessu tagi er sérstaklega mikilvægt í landi þar sem fjármagnshreyfingar eru frjálsar og lausar innstæður í bankakerfinu nema u.þ.b. heilli landsframleiðslu.

Ef vítahringur gjaldeyrisútstreymis myndast vegna þess að ávöxtun heldur ekki í við verðbólgu getur verið mjög erfitt og kostnaðarsamt að stöðva hann.

„Útbreiddur misskilningur er að einhver náttúruleg takmörk séu fyrir því hversu mikið gengi gjaldmiðils geti fallið áður en markaðsöflin leiðrétta kúrsinn. Því fer fjarri að þetta eigi almennt við, sérstaklega þegar markaðsbrestir takmarka getu fjárfesta til að kaupa eignir í viðkomandi gjaldmiðli þegar þeir telja virði gjaldmiðils vanmetið. Misskilningurinn felst í því að rugla saman nafn- og raungengi.

Ef verðlag og laun aðlagast fljótt lægra gengi eru engin slík takmörk fyrir hendi, eins og öllum ætti að vera ljóst sem þekkja áratuga sögu stöðugrar virðisrýrnunar krónunnar.

Þegar verðbólga er orðin mjög mikil getur hún nærst af sjálfri sér nánast óháð efnahagsástandi að öðru leyti. Að endingu getur aðeins seðlabanki með aðhaldssamri peningastefnu stöðvað slíka þróun og varðveitt gildi gjaldmiðils til lengri tíma litið," samkvæmt Peningamálum Seðlabankans.

 Eins og fram kom í fyrri spám Seðlabankans eru horfur á töluverðum samdrætti landsframleiðslu á næstu tveimur árum eftir öflugan hagvöxt um langt skeið. Sá vöxtur var ekki alltaf sjálfbær eins og mikill viðskiptahalli vitnar um. Nokkur samdráttur er því óumflýjanlegur til þess að jafnvægi náist á ný.

„ Minnkandi umsvif í þjóðarbúskapnum munu auðvelda Seðlabankanum að koma böndum á verðbólgu en samdráttur mun á hinn bóginn verða íþyngjandi fyrir marga, ekki síst þá sem skuldsettastir eru.

Samkvæmt lögum ber Seðlabankanum að stuðla að stöðugu verðlagi. Raddir heyrast um að tímabært sé að taka ríkara tillit til þeirra erfiðleika sem lánsfjárkreppa veldur atvinnulífinu og víkja öðrum markmiðum til hliðar um lengri eða skemmri tíma. Slíkar aðgerðir til þess að örva atvinnulífið nú hefðu öfug áhrif því þær myndu leiða til lægra gengis, meiri verðbólgu og hærri verðbólguvæntinga og á endanum til meiri samdráttar í þjóðarbúskapnum. Þær myndu því veikja efnahag skuldsettra heimila og fyrirtækja og grafa undan fjármálalegum stöðugleika," segir Davíð Oddsson.

Segir hann mikilvægt á komandi mánuðum að auka traust á fjármálakerfið og tryggja virkni markaða. „Skiptasamningar Seðlabankans við norræna seðlabanka, útgáfa hans á innstæðubréfum og áform um aukna útgáfu ríkissjóðs á ríkisbréfum stuðla að þessu markmiði og styðja við gengi krónunnar."

Annað hvort þarf að hækka stýrivexti eða hefja lækkun síðar en áætlað var

Meiri upphafsverðbólga og lægra gengi krónu, sem í upphafi leiða til lægri raunstýrivaxta, hafa meiri áhrif á verðbólguhorfurnar en hitt að áætluð framleiðsluspenna stefnir í að verða nokkru minni í ár en áður var spáð.

„Til þess að ná verðbólgumarkmiðinu á svipuðum tíma og í aprílspánni þarf annaðhvort að hækka stýrivexti meira framan af spáferlinum eða hefja lækkun þeirra síðar en gert var ráð fyrir í apríl. Síðari leiðin er farin í grunnspánni. Síðbúnari lækkun leiðir til þess að munur stýrivaxtaferlanna verður mestur rúmlega 3 prósentur.

Fyrrnefnda leiðin fæli í sér jafnvel ívið minna framleiðslutap, því að þannig virðist hægt að hefja lækkun stýrivaxta aðeins fyrr. Munurinn er þó lítill miðað við óvissuna sem er til staðar. Stýrivaxtaferillinn sem gengið er út frá í spánni virðist duga til þess að ná verðbólgumarkmiðinu á þriðja fjórðungi ársins 2010, þ.e.a.s. á svipuðum tíma og í aprílspánni. Það er lengri tími en að jafnaði teldist ásættanlegt.

Í ljósi þess að verðbólgan er nú u.þ.b. 10 prósentum yfir markmiði Seðlabankans er þó ekki raunhæft að markmiðið náist fyrr nema með mun hærri stýrivöxtum og umtalsvert meiri samdrætti. Hraðari hjöðnun verðbólgu er þó ekki útilokuð, t.d. ef gengisþróunin yrði mun hagstæðari en nú er reiknað með. Hjöðnun verðbólgunnar árið 2002 gefur vísbendingu um hve fljótt gæti dregið úr henni ef gengi krónu hækkar hratt þegar umtalsverður framleiðsluslaki hefur myndast og húsnæðisverðbólga verður úr sögunni," að því er segir í Peningamálum Seðlabanka Íslands.

Snýst um traust

Viðskiptabankarnir gegna mikilvægu hlutverki í að viðhalda trausti á fjármálakerfið. Við ríkjandi aðstæður á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum ber þeim að standa vörð um lausafjár- og eiginfjárstöðu sína og leita leiða til þess að draga eftir megni úr þörf fyrir erlent lánsfé og laga umfang sitt að gerbreyttum aðstæðum, að því er segir í rökum bankastjórnar fyrir vaxtaákvörðun nú.

„Peningastefnan snýst um traust sem tekur langan tíma að byggja upp og festa í sessi. Miklu varðar að hvika hvergi á meðan ágjöfin er sem mest og halda fast við þau markmið sem sett hafa verið. Það mun bankinn gera svo hann geti af öryggi hafið og fylgt vaxtalækkunarferli þegar þau skilyrði hafa skapast.

Brýnasta viðfangsefnið er enn sem fyrr að ná tökum á verðbólgu og koma í veg fyrir að aukning hennar að undanförnu valdi víxláhrifum launa, verðlags og gengis. Vissulega mun draga nokkuð úr kaupmætti á aðlögunarskeiði en það mun standa skemur en ella ef tekið er á framangreindum þáttum af festu. Takist það vel mun það flýta fyrir lækkun stýrivaxta og traustum efnahagsbata.

Peningastefnan verður að veita það aðhald sem nauðsynlegt er til þess að draga úr verðbólgu og verðbólguvæntingum. Ábyrgir aðilar verða að forðast að veikja það aðhald," að því er segir í rökum bankastjórnar Seðlabanka Íslands fyrir vaxtaákvörðuninni nú.

Hætta á frekari þrýstingi á gengi krónunnar

Á næstu misserum kann krónan enn að eiga undir högg að sækja, að því er fram kemur í Peningamálum.

„ Vandinn á gjaldeyrisskiptamarkaðinum er enn til staðar. Aðrir farvegir fjármögnunar munu líklega aðeins að hluta koma í stað virks gjaldeyrisskiptamarkaðar þegar kemur að gjalddögum rúmlega 100 ma.kr. jöklabréfa á tímabilinu ágúst til nóvember. Því er hætta á frekari þrýstingi á gengi krónunnar uns annað hvort gerist, að innlend eftirspurn hefur dregist nægilega saman til þess að þörf fyrir erlent fjármagn minnki eða að aðgangur að alþjóðlegum fjármálamörkuðum verði greiðari."

Mesta rýrnum kaupmáttar frá tíunda áratug síðustu aldar

Kaupmáttur launa hefur nú þegar rýrnað um u.þ.b. 4% frá fyrra ári, sem er mesta lækkun kaupmáttar á einu ári frá tíunda áratug síðustu aldar. Horfur eru á að 4-7 prósentur muni vanta upp á að kaupmáttar- og verðbólguákvæði kjarasamninga standis, að því  er fram kemur í Peningamálum.

„ Lækki gengi krónunnar frekar gæti munurinn jafnvel orðið enn meiri. Meginvandi hagstjórnar á Íslandi felst hins vegar í því að kaupmáttur er meiri en framleiðslugeta þjóðarbúsins stendur undir. Takmarkaður aðgangur að alþjóðlegu lánsfjármagni leiðir til þess að óhjákvæmileg aðlögun kaupmáttar að framleiðslugetu verður hraðari en ella. Tilraunir til þess að koma í veg fyrir þá aðlögun geta aðeins leitt til meiri verðbólgu eða hærri vaxta og að lokum meira atvinnuleysis."

Peningamál Seðlabanka Íslands 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK