Voru skuldir stjórnenda Kaupþings afskrifaðar?

Kaupþing.
Kaupþing. Reuters

Greint var frá því í fréttatímum RÚV og Stöðvar 2 í kvöld að Kaupþing hafi afskrifað skuldir fjölda starfsmanna bankans örfáum vikum áður en bankinn var þjóðnýttur. Heimildarmaður RÚV segir að stjórn bankans hafi tekið þessa ákvörðun. Fjárhæðirnar munu vera háar og skuldir fjölda starfsmanna munu hafa verið afskrifaðar. Samkvæmt Stöð 2 voru 50 milljarða skuldir æðstu stjórnenda bankans afskrifaðar.

Jónas Sigurgeirsson, forstöðumaður samskiptasviðs Kaupþings, sagði í samtali við mbl.is ekki geta tjáð sig um þessi mál en bendir á svar Fjármálaeftirlitsins til mbl.is fyrr í dag og tilkynningu sem bankastjóri Kaupþings, Finnur Sveinbjörnsson, sendi í dag.  

„Í ákvörðunum FME vegna ráðstöfunar eigna og skulda til nýrra banka er ekkert vikið að því að fara eigi sérstaklega með skuldbindingar starfsmanna bankanna. Þær lúta sömu lögmálum og önnur lán sem fluttust yfir til nýju bankanna.

Í ákvörðunum vegna Landsbanka Íslands hf., Glitnis banka hf. og Kaupþings banka hf. er gert ráð fyrir því að öll útlán í útibúum á Íslandi flytjist yfir til nýju bankanna sem verða þá kröfuhafar samkvæmt þeim lánasamningum og skuldabréfum sem um ræðir. Það verður þá nýju bankanna að innheimta þær kröfur sem og aðrar á grundvelli þeirra trygginga sem fyrir liggja. Það er því rangt að Fjármálaeftirlitið hafi sérstaklega samþykkt niðurfellingu krafna eða trygginga sem tengjast lánveitingum til starfsmanna bankanna,“ að því er segir í svari FME við fyrirspurn mbl.is.

Í tilkynningu frá Finni Sveinbjörnssyni kemur fram að samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. október 2008 var öllum eignum Kaupþings banka hf.,  hverju nafni sem nefnast, svo sem fasteignum, lausafé, reiðufé, eignarhlutum í öðrum félögum og kröfuréttindum ráðstafað til Nýja Kaupþings banka hf., meðal annars skuldir vegna verðbréfakaupa viðskiptavina, þar með talið starfsmanna.   

„Engin ákvörðun hefur verið tekin um uppgjör þessara skulda en unnið er að lausn þessara mála í samvinnu við viðskiptavini.   
 
Að öðru leyti getur bankinn ekki tjáð sig um atriði sem lúta að einkamálefnum viðskiptavina hans."  
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK