Svipmynd: Paul Volcker og Íslandstengslin

Paul Volcker.
Paul Volcker. Reuters

Þegar Paul Volcker, fyrrverandi Seðlabankastjóri Bandaríkjanna, hefur störf sem formaður ráðgjafarnefndar Barrack Obama, verðandi forseta, um endurreisn efnahagslífs Bandaríkjanna, verður nýi forsetinn sá sjötti í röð þeirra sem þessi margreyndi hagfræðingur hefur þjónað.

Fyrstur forsetanna var John F. Kennedy, þá Lyndon B. Johnson, Richard M. Nixon, Jimmy Carter sem gerði hann að Seðlabankastjóri, og Ronald Reagan sem endurréði hann í starfið. Hann var ekki kvaddur til þjónustu við Bill Clinton né þá Bush-feðga, en þegar Obama hóf kosningabaráttu sína varð Volcker sérlegur efnahagsráðunautur hans, áttræður að aldri, og eftir að Obama var kosinn forseti lagði hann áherslu á að halda í reynsluboltana sem höfðu gefist honum svo vel og þar með var Paul Volcker aftur kominn í forsetaþjónustu.

Paul Volcker fæddist og ólst upp í New Jersey, stundaði nám í Princeton og Harvard auk þess að vera gestanemi um tíma í London School of Economics. Hann réðst sem hagfræðingur til Seðlabankans í New York 1952 og 5 árum síðar varð hann aðalhagfræðingur Chase Manhattan bankans en inn á milli starfaði hann í stjórnsýslunni sem aðstoðarrráðherra í fjármálaráðuneytinu, bæði frá 1962-65 og aftur frá 1969-74 og átti þá þátt í þeirri ákvörðun þegar ákveðið var að hverfa frá því að miða gengi dollars við gull sem leiddi til hruns Bretton Woods-kerfisins.

Kvað niður verðbólgudrauginn

Volcker var skipaður Seðlabankastjóri Bandaríkjanna í ágúst 1979 við mjög erfiðar aðstæður. Verðbólgan var komin í tveggja stafa tölu og honum var ljóst að við svo mátti ekki búa. Í viðtali við The First Measured Century, sjónvarsþátt á vegum almenningssjónvarpsins bandaríska lýsir hann aðkomunni og segir öll tákn hafa verið á lofti um að framundan væri samdráttarskeið.

Ráðið sem hann greip til var að keyra niður verðbólguna með verulegri vaxtahækkun sem olli harðri en skjótri efnahagsdívu. Volcker mátti sæta mikilli gagnrýni og kom til opinberra mótmæla gegn stefnu hans, en aðgerðin tókst. Von bráðar var verðbólgan komin á viðráðanlegt stig, efnahagslífið rétti sig við og í hönd fór eitt langvinnasta hagsældarskeið í sögu Bandaríkjanna. Ævinlega þegar nafn Paul Volckers ber á góma er sagan af því hvernig hann slökkti verðbólgueldinn rifjuð upp.

Eftir að hann lauk störfum hjá Seðlabanka Bandaríkjanna eftir tvö tímabil hefur hann iðulega verið kallaður til að greiða úr erfiðum úrlausnarmálum, svo sem hvernig fara átti með gyðingagullið sem þýskir nasistar höfðu sett í geymslu í svissneskum bönkum, og fara fyrir rannsókninni á Írakshneykslinu - olía gegn fæðu -  innan Sameinuðu þjóðanna sem tengdist Kojo Annan, syni Kofi Annan, framkvæmdastjóra samtakanna.

Veiðir lax í íslenskum ám

Nú telur nýr Bandaríkjaforseti Paul Volcker enn geta komið að notum þótt kominn sé af léttasta skeiði. Orri Vigfússon þekkir vel til Volckers og þá í gegnum starf verndarsamtakanna um N-Atlantshafslaxinn, The Atlantic Salmon Federation (ASF) en laxveiði er aðaláhugamál hans. Sjálfur hefur Volcker einmitt sagt að mestu mistök sín eftir að hann komst til vits og ára hafi verið þegar hann fór ásamt eiginkonu sinni, Barböru  sem lést 1998, í brúðkaupferð til Main og komst í kast við fluguveiði. Þá varð ekki aftur snúið.

Orri var einmitt viðstaddur þegar Volcker var heiðraður sérstaklega í heiðursmálsverði ASF-samtakanna í fyrri viku fyrir framlag sitt til verndar laxastofninum í N-Atlantshafinu. „Um leið og Volcker þakkaði fyrir sig, þakkaði hann samtökunum fyrir framtak þeirra við að reisa við laxastofninn - en bætti við að hann vonaðist svo sannarlega til að ekki myndi taka eins langan tíma að endurreisa efnahag heimsins,“ segir Orri.

Paul Volcker hefur komið til Íslands til laxveiða um árabil. „Upphaflega kom hann hér á vegum Sigurðar Helgasonar eldri í Flugleiðum og Jóhannesar Nordal fyrrum seðlabankastjóra, en núna upp á síðkastið hefur hann komið á mínum vegum. Hann hefur veitt m..a í Laxá í Aðaldal, í Selá og Hofsá í Vopnafirði. Síðast var hann hér í fyrrasumar með dóttur sinni og dóttursyni og veiddi þá í Fljótaá.“

Þegar Orri fer vestur um haf snæða þeir jafnan morgunverð saman, hann og seðlabankastjórinn fyrrverandi. „Hann er sérstaklega skemmtilegur og viðræðugóður maður. Um leið er hann mjög jarðbundinn maður, stórfróður og með mikla yfirsýn." Reyndar er eins gott fyrir Volcker að vera jarðbundinn, því að hann gnæfir yfir flesta samferðamenn sína, er 2,01 metri hæð og reyndar var löngum til þess tekið að hann var heilu feti eða liðlega 30 sm hærri en eiginkonan.

Orri segir að það hafi svo sem hvarflað að sér að orða það við Volcker að veita okkur Íslendingum ráð í þeim sem vanda sem þjóðin á við að etja.

En annar maður varð sem sagt á undan að næla í hann, Barack nokkur Obama.

Barack Obama kynnir forsvarsmenn efnahagsráðgjafanefndar sinnar til sögunnar, þá Paul …
Barack Obama kynnir forsvarsmenn efnahagsráðgjafanefndar sinnar til sögunnar, þá Paul Volcker og Austan Goolsbee. Reuters
Paul Volcker og Orri Vigfússon í New York fyrir skömmu.
Paul Volcker og Orri Vigfússon í New York fyrir skömmu.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK