Félag frá Tortola geymdi bréf fyrir Landsbankann

Félag á eyjunni Tortola geymdi hlutabréf í Landsbankanum fyrir bankann sjálfan og seldi honum þau síðan aftur nokkrum árum síðar þegar starfsmenn sem áttu kauprétti nýttu þá. Með þessu varði bankinn sig fyrir hækkunum á hlutabréfunum sem starfsmennirnir áttu rétt á að kaupa án þess að það hefði áhrif á eiginfjárstöðu bankans.

Landsbankinn seldi

Félagið sem geymdi hlutinn fyrir Landsbankann heitir Peko Investment Company Ltd. Það er skráð í Road Town, höfuðborg Tortola eyju, en hún er ein Bresku jómfrúareyjanna. Félagið fékk leyfi til að stunda bankaviðskipti hérlendis í mars 2005. Umsjónaraðili félagsins samkvæmt skráningarvottorði er Landsbanki Íslands. Peko hóf að kaupa hluti í Landsbankanum í apríl 2005. Á sama tíma seldi Landsbankinn stóran hluta í sjálfum sér. Í lok júlí átti Peko alls 129,7 milljón hluti í Landsbankanum, eða 1,46 prósent, og var ellefti stærsti eigandi hans.

Í byrjun mars 2007 seldi Peko síðan öll hlutabréf sín í Landsbankanum, 129,7 milljónir hluta. Í sömu viku keypti Landsbankinn í Lúxemborg nánast sama magn bréfa, 128,5 milljónir.

Selt til lykilstarfsmanna

Hinn 30. mars 2007 tilkynnti Landsbankinn að hann hefði keypt 81,5 milljón hluti í bankanum á fyrirfram ákveðnu gengi 3,12, og að hluturinn hefði í framhaldinu verið seldur til lykilstarfsmanna vegna nýtingar á áunnum kaupréttarsamningum þeirra. Gengi bréfa í bankanum þann dag var 31,8. Þorri kaupréttanna miðaðist við gengið 3,12 og því gátu starfsmennirnir selt bréfin samdægurs á um tíföldu verði. Af því greiddu þeir síðan 35,72 prósent tekjuskatt. Morgunblaðið sagði frá því á fimmtudag að stjórnendur bankans hefðu meðal annars notað félög skráð í Panama, Zimham Corp. og Empennage Inc, til að kaupa hlutabréf í bankanum og geyma þangað til að starfsmenn nýttu sér kauprétti sem þeir áunnu sér samkvæmt samningum.

Afgreiðsla kauprétta

Þrjár leiðir eru færar við afgreiðslu kauprétta.

Í fyrsta lagi að kaupa bréfin á þeim degi sem kauprétturinn var nýttur. Þá yrði bankinn að kaupa bréfin á gengi þess dags. Með því myndi töluverður kostnaður leggjast á bankann þar sem bréf hækkuðu í flestum tilfellum mikið frá því að kaupréttir voru gerðir og þar til þeir voru nýttir.

Í annan stað gat banki keypt bréfin og átt þau sjálfur þangað til kæmi að nýtingu kaupréttar, sem í flestum tilfellum var nokkur ár. Slík eign var hins vegar dregin frá eigin fé bankans og rýrði þannig meðal annars útlánagetu hans.

Þriðji möguleikinn, og sá sem Landsbankinn valdi, var að láta félag sem var ekki í eigu bankans „geyma“ hlutabréfin sem starfsmenn hans áttu kauprétt á fram að nýtingu. Bankinn gerði síðan samning við félagið um að kaupa bréfin til baka á umsömdu gengi eftir nokkur ár þegar kom að því að nýta kaupréttinn. Félagið, sem í sumum tilvikum var í eigu sjálfseignarsjóða, fékk síðan greidda þóknun sem samsvaraði þeim kostnaði sem „geymsla“ hlutanna bakaði því.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK