Öldungadeildin samþykkti fjármálapakka

Öldungadeildarþingmenn ræða við blaðamenn í dag.
Öldungadeildarþingmenn ræða við blaðamenn í dag. Reuters

Öldungadeild Bandaríkjanna samþykkti undir kvöld 838 milljarða dala fjárveitingu, sem ætlað er að örva efnahagslíf landsins. Fulltrúadeild þingsins hafði áður samþykkt frumvarp svipaðs efnis en þar sem frumvörpin eru ekki eins þurfa þingdeildirnar að samræma lagatextann áður en hægt er að senda hann til Baracks Obama til staðfestingar.

Öldungadeildin samþykkti frumvarpið með 61 atkvæði gegn 37 en nokkrir repúblikanar greiddu atkvæði með frumvarpinu.  Obama hefur sagt, að hann vilji fá endanlegt frumvarp á sitt borð fyrir 16. febrúar en það geri kleift að búa til allt að 4 milljónir nýrra starfa og lyfta undir efnahagslífið. 

Frumvarpið, sem fulltrúadeildin samþykkti, gerir ráð fyrir meiri fjárframlögum til skóla, sveitarstjórna og einstakra ríkja en frumvarp öldungadeildarinnar. Það síðarnefnda gerir hins vegar ráð fyrir meiri skattalækkunum.

Fyrr í dag kynnti Timothy Geithner, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, aðgerðir sem fyrirhugaðar eru til að koma fjármálakerfinu til bjargar. Stendur m.a. til að búa til fjárfestingasjóð með 500 milljarða dollara framlagi, en hlutverk hans verður að gleypa upp slæmar eignir bankanna.

Hlutabréf, bæði á Wall Street og í Evrópu, féllu í verði eftir að aðgerðirnar voru kynntar en fjárfestar segja, að enn sé óljóst hvort aðgerðirnar nægi til að snúa við efnahagsþróuninni.  Dow Jones hlutabréfavísitalan lækkaði þannig um 3,51% og Nasdaq vísitalan lækkaði um 2,81%. 

„Við viljum ekki vera svartsýn en það sem felst í þessari áætlun er í raun loforð um frekari aðgerðir sem enn á eftir að móta," segir Jon Ogg, sérfræðingur hjá 24/7 á Wall Street.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK