Ingólfur Bender: Lækkunin gefur tóninn

Ingólfur Bender
Ingólfur Bender

Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Íslandsbanka, segir vaxtalækkun Seðlabanka Íslands nú myndarlega og hún gefi tóninn fyrir það sem koma skal á næsta vaxtaákvörðunardegi bankans eftir mánuð.

„Þetta er myndarleg lækkun og í takt við það sem maður óskaði sér," segir Ingólfur en Greining Íslandsbanka spáði 1,5 prósenta stýrivaxtalækkun nú en hún er 2,5 prósentur. Hann segir að spá Greiningar hafi verið í samræmi við það sem deildin las út úr fyrri ákvörðunum nefndarinnar og stefnu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. 

Efnahagslífið kallar á lægri vexti

„Þetta var stærra skref en við spáðum en í takt við það sem við vorum búin að gefa út að yrði niðurstaðan. Ástæðan er einfaldlega sú að það eru engin rök fyrir því að fara þessi litlu skref sem menn hafa verið að fara á virkum fjármálamarkaði þar sem tíðum smærri vaxtalækkunum er velt út. 

Hér hafa menn verið að horfa á áhrifin á gjaldeyrismarkaðinn og einhverju leyti á skuldabréfamarkaðinn og hlutabréfamarkaðinn. Nú er gjaldeyrismarkaðurinn og hlutabréfamarkaðurinn dálítið úr leik. Hagkerfið er lokað og umhverfið öðruvísi," segir Ingólfur. 

Þegar svoleiðis er þá er hægt að taka miklu stærri stökk og efnahagslífið kallar allt á lægri vexti, segir Ingólfur.

„Verðbólgan er að koma hratt niður og innlend eftirspurn er á undanhaldi. Atvinnuleysi er að aukast og mikill slaki er á markaði. Enginn þrýstingur á verðlag af vinnumarkaði. Launahækkanir litlar og húsnæðisverð á leiðinni niður. Allir þessir þættir eru að kýla verðbólguna tiltölulega hratt niður á næstunni," segir Ingólfur.

Aðspurður segir Ingólfur að hátt gengi krónunnar eigi ekki að hafa mikil áhrif á verðbólguna. Það séu aðrir þættir sem stýri henni innan þess haftafyrirkomulags sem hér er. „Ég held að það sé rétt af peningastefnunefndinni að horfa fram hjá því í augnablikinu."

Ingólfur segir að vaxtamunur Íslands og helstu viðskiptalanda sé gífurlegur um þessar mundir og þó svo stýrivextir muni lækka talsvert til viðbótar hér þá sé sá vaxtamunur enn til staðar. 

Greining Íslandsbanka á von á því að vaxtalækkunarferlið muni halda áfram og búast megi við myndarlegri lækkun stýrivaxta á næsta vaxtaákvörðunardegi Seðlabanka Íslands. Ingólfur segist eiga von á því að stýrivextir verði komnir niður í um 10% í árslok.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK