Finnland í djúpri lægð

Höfuðstöðvar Nokia í Finnlandi. Tekjur þess hafa dregist saman um …
Höfuðstöðvar Nokia í Finnlandi. Tekjur þess hafa dregist saman um fjórðung. Reuters

Samdrátturinn sem Finnland gengur nú í gegnum er hinn mesti á evru-svæðinu svonefnda og jafnframt á Norðurlöndum, en nýjar hagtölur sem birtar voru í morgun sýna að finnska hagkerfið dróst saman um 9,4% á öðrum ársfjórðungi miðað við sama tíma í fyrra.

Bakslagið er mesti samdráttur sem mælst hefur í Finnlandi frá því að byrjað var að safna sambærilegum tölum um 1990 og er verra en 7,6% samdrátturinn á milli ára fyrstu þrjá mánuði ársins. 

„Tölurnar eru hrollvekjandi,“ segir aðalhagfræðingur OP-Pohjola Group, Anssi Rantala, í samtali við fréttastofuna AFP, og bendir á að finnskt efnahagslíf sé afar háð útflutningi, sem hafi orðið afar illa úti vegna þess hversu mjög hefur dregið úr eftirspurn á heimsvísu.

Hagfræðingar benda á að viðskiptablaðið Kauppalethi hafi spáð 7,3% samdrætti á 12 mánaða grunni á öðrum ársfjórðungi. Finnska hagstofan segir hagkerfið hafa skroppið saman um 2,6% á öðrum ársfjórðungi í samanburði við 3% niðursveiflu á hinum fyrsta, sem gæfi ekki væntingar um mikinn bata.

Hagvaxtartölur Finnlands eru hinar verstu á evrusvæðinu, þeirra 16 ríkja sem eru innan myntsamstarfsins í Evrópu, þó að talið sé að tölur Írlands sem vænst er seinna í mánuðinum geti jafnvel orðið verri.

Á meðal annarra Evrópusambandsríkja voru það einungis nágrannarnir - Eistland, Lettland og Litháen sem lentu í dýpri lægð heldur en Finnar á öðrum ársfjórðungi.

Mikill samdráttur í útflutningi

Pentti Forsman, hagfræðingur, hjá finnska seðlabankanum, útskýrir samdráttinn með því að útflutningur nemi nú 35% af finnska hagkerfinu en hafi verið um helmingur á síðasta ári og horfur séu á áframhaldandi falli á næsta ári.

Frá apríl til júlíloka á þessu ári féll útflutningurinn um 30,2% á 12 mánaða grunni, samkvæmt upplýsingum hagstofunnar, meðan fjárfesting dróst saman um 11,7%.

Minnkandi útflutningur hefur haft í för með sér að fyrirtæki hafa þurft að fækka starfsmönnum til að mæta minnkandi eftirspurn. Það þýðir aftur að með auknu atvinnuleysi draga einstaklingar úr neyslu - neysla heimilanna hefur lækkað um 3,4% á öðrum ársfjórðungi.

Nágrannalöndin eru þó í enn meiri erfiðleikum - hagkerfi Eistlands, Lettlands og Litháen hafa skroppið sama um nálægt 15%.

Rússland, helsta viðskiptaland Finna ásamt Þýskalandi, hefur einnig mátt horfa upp á um 10% samdrátt milli ára. Það hefur sömuleiðis komið hart niður á finnskum fyrirtækjum.

Nokia hefur mátt horfa upp á um fjórðung tekna sinna þurrkast út og stærstu pappírsframleiðendurnir. Stora-Enso og UPM-Kymmene skera niður framleiðslu og störf vegna samdráttarins í blaðasölu og auglýsingum.

Tuulia Astlund og Reijo Mankinen hjá ETLA efnahagsrannsóknarstofnuninni telja þó að nú sé botninum náð og vænta hagstæðari vaxtartalna á þriðja ársfjórðungi.

Finnska fjármálaráðuneytið sem spáð hafði um 6% samdrætti á árinu mun birta nýja hagvaxtaspá 15. september.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK