Færeyjabanki eignast meirihlutann í Verði

Framkvæmdastjóri Varðar trygginga hf. og Varðar líftrygginga er Guðmundur Jóhann …
Framkvæmdastjóri Varðar trygginga hf. og Varðar líftrygginga er Guðmundur Jóhann Jónsson. mbl.is/Frikki

Føroya Banki hefur keypt 51% hlut í tryggingafélaginu Verði. Fyrir á færeyski bankinn tryggingafélagið Trygd í Færeyjum og segir í tilkynningu frá bankanum að með kaupunum sé bankinn að styrkja stöðu sína á tryggingamarkaði.

Heildarfjárfesting bankans í Verði Tryggingum eru 1.150 milljónir króna. Gefin verða út ný hlutabréf fyrir 700 milljónir króna, þar af koma 600 milljónir frá Færeyja banka og 100 milljónir frá öðrum hluthöfum. Jafnframt mun Føroya Banki kaupa hlutabréf frá fyrri hluthöfum fyrir 550 milljónir króna.

Núverandi hluthafar, Landsbankinn, SP-Fjármögnun og Byr sparisjóður, munu áfram styðja við bakið á tryggingafélaginu, samkvæmt tilkynningu og er ákvæði í kaupsamningnum um að Føroya Banki er með kauprétt á hlut þeirra í Verði sem væntanlega verður nýttur á fyrri hluta ársins 2012.

Í tilkynningu kemur fram að markaðshlutdeild Varðar sé um 9% á íslenska tryggingamarkaðnum. Viðskiptavinirnir séu um 28 þúsund talsins og starfsmennirnir 50.

Á vef Varðar kemur fram að rætur félagsins liggja í stofnun Vélbátasamtryggingar Eyjafjarðar,en það var stofnað var árið 1926. Það var síðar nefnt Vélbátatrygging Eyjafjarðar GT og svo Vörður vátryggingafélag hf.

Íslandstrygging hf. var stofnað árið 2002. Félagið hóf starfsemi sína í öllum greinarflokkum vátrygginga í byrjun ágúst 2002. Að félaginu stóð hópur einstaklinga og lögaðila sem áhuga höfðu á vátryggingarekstri. Á haustmánuðum 2004 hófust viðræður á milli forsvarsmanna Varðar vátryggingafélags og Íslandstryggingar hf. um samruna félaganna. Töldu eigendur og stjórnendur beggja félaga þann samruna afar heppilegan þar sem ekki væri rekstrargrundvöllur fyrir svo litlum rekstrareiningum. Í tengslum við fyrirhugaðan samruna eignaðist Baugur 100% hlutafjár Varðar vátryggingafélags en þegar samrunaviðræður voru á lokastigi tilkynnti Baugur um sölu á öllu hlutafé Varðar til VÍS. Eftir stuttar viðræður á milli stjórnenda Íslandstryggingar hf. og VÍS var ákveðið að samrunaáformum þeim sem farið höfðu að stað milli Varðar vátryggingafélags og Íslandstryggingar hf. yrði fram haldið og var samruni félaganna ákveðinn í lok árs 2004. Var félögunum síðan rennt saman þann 1. janúar 2005 og fékk sameinað félagið nafnið Vörður Íslandstrygging hf.

„Árið 2006 var Verði Íslandstryggingu nokkuð þungt í skauti. Árið einkenndist af breytingum á eignarhaldi stórra hluta í félaginu, örum breytingum á yfirstjórn og hallarekstri á vátryggingastarfsemi. Í mars 2006 keypti Exista hf. síðan Eignarhaldsfélag VÍS hf. og komst um 56% hlutur í Verði Íslandstryggingu þannig í eigu Exista.Í framhaldi leitaði Exista eftir því að ná samstöðu um að sameina Vörð Íslandstryggingu og VÍS. Samkomulag náðist ekki í hópi hluthafa félaganna.

Í nóvember 2006 kaupir Klink ehf. mest allt hlutafé Varðar Íslandstryggingar af Exista og selur í beinu framhaldi til Eignarhaldsfélagsins ehf. Að Eignarhaldsfélaginu ehf. standa SP-Fjármögnun, Landsbankinn og BYR sparisjóður," að því er segir á vef Varðar.

Í júní 2007 var nafni félagsins breytt í Vörður tryggingar hf.   Vörður líftryggingar hf. var stofnað í desember 2007. Eigendur þess eru Landsbankinn og Vörður tryggingar.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK