Samruni sendur aftur til Samkeppniseftirlitsins

Teymi.
Teymi.

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur fellt úr gildi ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá því í október um að ekki skuli aðhafast frekar vegna samruna Vestia, dótturfélags Landsbankans og Teymis hf. Samkeppniseftirlitið skal taka málið fyrir að nýju, samkvæmt úrskurði áfrýjunarnefndarinnar.

Í úrskurði áfrýjunarnefndarinnar kemur fram að Síminn hafi í nóvember kært ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 34/2009, frá 5. október 2009. Í hinni kærðu ákvörðun komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til að aðhafast frekar vegna samruna Vestia hf. og Teymis hf.

Af hálfu Símans var þess aðallega krafist að hin kærða ákvörðun yrði felld úr gildi og gripið verði til íhlutunar í samrunann. Til vara krafðist Síminn þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og lagt fyrir Samkeppniseftirlitið að taka málið til meðferðar að nýju.

Af hálfu Samkeppniseftirlitsins var þess aðallega krafist að kæru Símans yrði vísað frá áfrýjunarnefnd samkeppnismála. Til vara var þess krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna hennar.

Ekki lagagrundvöllur fyrir ógildingu samruna

Í niðurstöðu áfrýjunarnefndar segir: „Í hinni kærðu ákvörðun er kveðið á um að ekki sé ástæða til að hafast frekar að vegna samruna Vestia ehf. og Teymis hf.

Aðalkröfu áfrýjanda verður að skýra þannig að með henni sé þess krafist að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 34/2009 verði felld úr gildi, að samruninn verði ógiltur og að gripið verði til íhlutunar í samrunann. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála telur ekki lagagrundvöll fyrir nefndina að ógilda samrunann og fellst á rök Samkeppniseftirlitsins um það atriði."

Ýmis vandamál skapast við hagsmunatengsl banka

Að mati áfrýjunarnefndarinnar skapast ýmis konar hætta á röskun á samkeppni ef ekki eru settar skorður við langvarandi eignarhaldi lánardrottna á borð við banka að fyrirtækjum á samkeppnismarkaði.

„Sú röskun getur strítt gegn markmiðum samkeppnislaga og þar með hagsmunum neytenda ef fyrirtæki getur athafnað sig á markaði án eðlilegs aðhalds frá lánardrottnum sínum og eiganda. Telja verður að fjárhagslegur styrkur eigandans skipti hér máli og „þol“ hans til að bíða með að fá fjármagn sitt til baka þar til að önnur fyrirtæki á sama markaði hafa eftir atvikum veikst eða helst úr lestinni.

Þá er ljóst að ýmis vandamál skapast við hagsmunatengsl banka, sem liggja víða, og þær miklu upplýsingar sem bankarnir búa yfir um samkeppnisaðila og eftir atvikum viðskiptamenn á markaði. Þá verður ekki horft fram hjá því að bankarnir eru stórir viðskiptavinir á þjónustumörkuðum og í núverandi ástandi eru mörg félög þeim tengd. Getur því skapast hætta á óeðlilegum gerningum og misnotkun þeirrar aðstöðu. Þótt það sé til bóta að eignarhlutir í félögum séu í höndum sérstaks dótturfélags banka leysir það ekki allan vanda," að því er segir í niðurstöðu áfrýjunarnefndar samkeppnismála.

Fyrirmælum stjórnvalda fylgt

Landsbankinn hefur sent frá sér tilkynningu vegna ákvörðunar áfrýjunarnefndar og þar kemur fram að  áfrýjunarnefndin leggi fyrir Samkeppniseftirlitið að setja samrunanum skilyrði er varða meðal hversu lengi Vestia á hlutafé í Teymi.  

 „Eignarhaldsfélagið Vestia var stofnað af hálfu Landsbankans til að takast á við fordæmalausar aðstæður, þar sem augljóst var og er, að fjöldi fyrirtækja mun  ekki geta greitt af skuldum sínum við banka og aðrar lánastofnanir og þau verða því eign kröfuhafa. Með stofnun Vestia og aðskilnaði þess frá bankanum nást fram þau aðalmarkmið, að hámarka heimtur bankans af skuldsettum fyrirtækjum og auka verðmæti hlutafjár hans annarsvegar og halda tímabundnu eignarhaldi á fyrirtækjum aðskildum frá eiginlegri bankastarfsemi hinsvegar.

Um leið er fylgt þeim fyrirmælum stjórnvalda um að halda skuli lífi í fyrirtækjum sé þess nokkur kostur. Samkeppnisyfirvöld hafa skoðað öll mál Vestia rækilega og aldrei gert neinar athugasemdir við fyrirkomulag fyrirtækisins, stjórnartengsl við bankann eða aðra þætti rekstrarins. Bankinn og Vestia hafa frá upphafi lagt sig fram um að vinna náið með samkeppnisyfirvöldum og aldrei aðhafst neitt sem þau ekki hafa samþykkt.

 Úrskurðurinn í ofangreindu máli hefur að öllu óbreyttu í för með sér að eytt verður óvissu um samkeppnisréttarlegt rekstrarumhverfi þeirra atvinnufyrirtækja sem bankinn fer með yfirráð yfir.  

Það er bankanum mikið kappsmál, sem langstærsta viðskiptabanka íslenskra fyrirtækja, að reynt verði eftir föngum að koma í veg fyrir neikvæð áhrif af slíku eignarhaldi á íslenskt atvinnulíf við þær sérstæðu kringumstæður sem nú ríkja. Jafnframt verður að virða þá hagsmuni bankans er varða endurheimtur  lána til slíkra fyrirtækja enda eru miklir og víðtækir hagsmunir í húfi. 

Munu Landsbankinn og Vestia hér eftir sem hingað til starfa náið með samkeppnisyfirvöldum og leggja sitt lóð á vogarskálarnar við að skapa það umhverfi sem best hentar," samkvæmt fréttatilkynningu Landsbankans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK