Fréttaskýring: Glugginn opnast fyrir nýjar kröfur

Sú staða gæti komið upp að dómur Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggðra lána hefði neikvæð áhrif á þrotabú gömlu viðskiptabankanna.

Heimild er fyrir því í lögum um gjaldþrotaskipti að lýsa kröfu í þrotabú eftir að formlegur frestur til þess rennur út, sé ákveðnum skilyrðum fullnægt. Eitt þeirra skilyrða er að krafan verði til eftir úrskurð um að bú skuli tekið til gjaldþrotaskipta. Krafan kemur þá til skoðunar sem almenn krafa, hún nyti ekki forgangs.

Nýlegur dómur Hæstaréttar hefur skapað töluverða óvissu um afdrif gengistryggðra lána og hvernig endurgreiðslu þeirra skuli háttað. Fari svo að miðað verði við samningsvexti eða vexti Seðlabanka Íslands er líklegt að fjöldi lánþega muni hafa greitt of mikið af lánum sínum og krefjist í kjölfarið leiðréttingar á því. Krafan verður m.ö.o. til eftir úrskurð um gjaldþrotaskipti.

Gömul lán dregin fram á ný?

Þau lán sem gerð voru upp á árunum fyrir hrun færðust hvorki yfir í nýju bankana né í þrotabú hinna gömlu, þar sem þau töldust úr sögunni. Nú kann hins vegar að reynast ástæða til að dusta rykið af þeim.

Samkvæmt úrskurði Hæstaréttar, sem vísar til laga um vexti og verðtryggingu frá 2001, er gengistrygging lána frá þeim tíma ólögmæt, og gildir því einu hvort þau eru að fullu gerð upp nú þegar dómur er loks fallinn. Nokkuð er um liðið síðan frestur til að lýsa nýjum kröfum í þrotabú gömlu bankanna rann út, en Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitanefndar Glitnis, segir það kunna að vera mögulegt að þeir sem greitt hafi upp lán sín við gömlu bankana geti komið kröfu að á grundvelli áðurnefndrar lagaheimildar. Slitastjórn muni taka afstöðu til þeirra, þegar og ef þeim verði lýst.Steinunn áréttar að þetta kunni líka að virka í hina áttina, þ.e. að Glitnir geti talið sig eiga kröfu vegna vangreiddra lána.

Gengisvísitala íslensku krónunnar lækkaði til að mynda allnokkuð frá því síðari hluta árs 2002, til ársloka 2006. Þetta þýðir með öðrum orðum að krónan styrktist á umræddu tímabili, og ættu þeir að hafa notið góðs af þeirri þróun sem voru með skuldbindingar í annarri mynt en krónu. Þeir sem greiddu upp gengistryggð lán sín á þeim tíma eru því hugsanlega ekki lausir allra mála og gætu jafnvel átt von á kröfu sér á hendur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK