Telja eitthvað bogið við íslenska peningastefnu

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands mbl.is/Ómar

Greining Íslandsbanka segir greinilega eitthvað bogið við peningastefnu Seðlabanka Íslands. Þegar ljóst var að kreppa væri yfirvofandi voru vextir hækkaðir upp úr öllu valdi. Nú þegar vísbendingar séu um að efnahagsbati sé á næsta leyti þá eru stýrivextir lækkaðir.

„Eftir hrun bankanna og þegar ljóst var að framundan væri umtalsverð kreppa í íslenskum þjóðarbúskap hækkaði Seðlabankinn stýrivexti sína sem aldrei fyrr eða um 6 prósentur og fór með þá upp í 18% í október 2008. Nú þegar vísbendingar eru um að efnahagsbati sé hafinn lækkar bankinn vexti sem aldrei fyrr, en í gær lækkaði hann stýrivexti sína um heila prósentu. Eitthvað virðist bogið við þessa íslensku peningastefnu," segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

Ólíkt öðrum seðlabönkum og óþarflega háir stýrivextir hér

Skýringin á þessum aðgerðum er markmið Seðlabankans um gengisstöðugleika sem sett var í aðgerðaráætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og íslenskra stjórnvalda í kjölfar hruns bankanna.

Gjaldeyrishöftin voru sett á til að hindra frekari lækkun krónunnar og var háu stýrivaxtarstigi ætlað að styðja við það. Horft var til á neikvæðra áhrifa þess á efnahag fyrirtækja og heimila ef krónan myndi falla frekar en bæði fyrirtækin og heimilin voru afar berskjölduð gagnvart þessum áhrifum vegna þess hve skuldsett þau voru og vegna þess hve stór hluti lána þeirra var gengisbundin með einum eða öðrum hætti.

„Afar ólík stýrivaxtaþróun var hins vegar í flestum öðrum löndum sem þó voru einnig að glíma við alvarlega fjármálakreppu. Til dæmis voru stýrivextir bæði í Bandaríkjunum, á evrusvæðinu og í Bretlandi lækkaðir hratt og um leið og vísbendingar um samdráttaráhrif fjármálaskellsins komu fram. Stýrivextir voru lækkaðir þar á sama tíma og stýrivextir hér voru hækkaðir. Voru stýrivextir banka víða í sögulegu lágmarki á sama tíma og þeir voru í sögulegu hámarki hér. Kreppan á Íslandi var samt dýpri og erfiðari en víðast hvar.

Rök peningastefnunefndar Seðlabankans fyrir háum stýrivöxtum og varfærnum skrefum til lækkunar hafa m.a. verið þau að það standi til í nánustu framtíð að afnema gjaldeyrishöftin. Var upprunalega áætlað að afnema þau að fullu á tveggja ára tímabili efnahagsáætlunar AGS og íslenskra stjórnvalda. Nú þegar þessi tvö ár eru nær liðin hefur ekkert gerst enn hvað varðar afnám haftanna.

Eðlileg spurning er þá hvort stýrivextirnir hafi ekki verið óþarflega háir á þessu erfiða krepputímabili í íslenskri hagssögu og þá hvort hagkerfið væri ekki komið betur af stað í uppsveiflunni ef vextir hefðu verið lægri. Að minnsta kosti er ljóst að ein meginforsenda Peningastefnunefndarinnar fyrir háu vaxtarstigi og varfærnum vaxtalækkunarskrefum á síðustu tæpu tveimur árum, þ.e. að afnám gjaldeyrishafta væru á næsta leiti, hefur reynst  röng. Stórt vaxtalækkunarskref nefndarinnar í gær gæti verið vísbending um að nefndin sé nú að átta sig á villu sinni og taki áformum AGS og íslenskra stjórnvalda um afnám haftanna fyrir ágústlok á næsta ári ekki of bókstaflega," segir í Morgunkorni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK