Fréttaskýring: Írafárið fer vaxandi á fjármálamörkuðum

Bank of Ireland
Bank of Ireland Reuters

Hægt er að draga tvær ályktanir af því að stærsta fréttin af leiðtogafundi tuttugu helstu iðnríkja heims í Suður-Kóreu í síðustu viku skuli vera um að fulltrúar evruríkjanna hafi sent frá sér sérstaka yfirlýsingu sem var ætlað að draga úr spennu á skuldabréfamörkuðum.

Í fyrsta lagi að valdahlutföllin í alþjóðahagkerfinu hafa breyst svo mikið frá lokum kalda stríðsins að litlar líkur eru á því að helstu iðnríki komi sér saman um víðtækar aðgerðir og inngrip á gjaldeyrismörkuðum, líkt og gerðist með Plaza-samkomulaginu og Louvre-samkomulaginu á níunda áratugnum, til að leiðrétta viðvarandi ójafnvægi í alþjóðviðskiptum. Í öðru lagi er óhætt að draga þá ályktun að skuldakreppan í Evrópu sé í raun að hefjast fremur en renna sitt skeið á enda og að hún eigi eftir að verða afdrifarík fyrir alþjóðahagkerfið.

Á föstudag lýstu leiðtogar fimm stærstu hagkerfa Evrópusambandsins því yfir á leiðtogafundi tuttugu helstu iðnríkja heims að ekki stæði til að fjárfestar þyrftu að þola skell vegna útistandandi ríkisskuldabréfa evruríkja. Ástæða yfirlýsingarinnar var að áhættuálag á ríkisskuldabréf Írlands hefur hækkað verulega ásamt álaginu á ríki á borð við Portúgal. Hækkunarhrinan hófst í kjölfar þess að leiðtogar ESB komu sér saman um að móta reglur í tengslum við mögulegt greiðslufall eins evruríkis. Reglurnar munu miðast við að skaðinn haldist innan landamæranna, ef svo má að orði komast, og að kröfu þýskra stjórnvalda munu þær kveða á um að fjárfestar muni frekar en skattgreiðendur bera kostnaðinn.

Nýju fyrirkomulagi er ætlað að koma í stað fyrir 750 milljarða evra björgunarsjóðinn sem settur var á laggirnar í vor í kjölfar þess að gríska ríkið stóð frammi fyrir greiðslufalli. Sjóðurinn verður lagður niður árið 2013 en þá rennur neyðaraðstoðin til gríska ríkisins sitt skeið á enda. Þar sem nýju reglunum er ætlað að fela í sér aukna ábyrgð fjárfesta á ríkisskuldabréfamarkaði hefur ávöxtunarkrafan á skuldabréf verst stöddu evruríkjanna farið hækkandi að undanförnu. Þetta er gerólík þróun og átti sér stað eftir að tilkynnt var stofnun neyðarsjóðsins í vor enda felur hann efnislega í sér að öll evruríkin tryggi skuldir hvors annars.

Skammgóður vermir

Yfirlýsing leiðtoga Bretlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu og Spánar á leiðtogafundinum í Suður-Kóreu leiddi til þess að ávöxtunarkrafan á írsk ríkisskuldabréf snarlækkaði á mörkuðum á föstudag. Hinsvegar hafði hún farið í hæstu hæðir dagana á undan og við lokun markaða endurspeglaði hún enn miklar væntingar um að írska ríkið kæmist ekki hjá því að feta í sömu fótspor og grísk stjórnvöld og sækja um fé úr neyðarsjóði ESB vegna skuldavandans.

Þó svo að írska ríkið þurfi ekki að endurfjármagna neinar skuldir fyrr en um mitt næsta ár telja fjárfestar í vaxandi mæli einsýnt að kostnaður ríkisins við að tryggja bankakerfið í heild sinni verði á endanum óviðráðanlegur og aðhald og niðurskurður í ríkisrekstrinum muni ekki duga til þess að koma skútunni á réttan kjöl. Fregnir af því að endurfjármögnun þeirra skuldbindinga sem ríkið hefur þurft að inna af hendi vegna bankanna hafi fyrst og fremst verið fengin frá Evrópska seðlabankanum hafa styrkt menn í þeirri trú að stjórnvöld muni ekki komast hjá því að leita á náðir ESB eftir neyðarfjármögnun á næstunni.

Óumflýjanlegum vanda slegið á frest

En áðurnefnd yfirlýsing vekur áleitnar spurningar um hvað myndi vinnast með slíku. Þó svo að hún hafi leitt til þess að áhættuálagið á írsk ríkisskuldabréf hafi lækkað lítillega úr hæstu hæðum um stund þá dregur hún ekki úr þeirri óvissu sem ríkir um framtíðarfjármögnun verst stöddu evuríkjanna.

Ljóst er að yfirlýst áform um að fjárfestar muni með formlegum hætti bera meiri áhættu af fjárfestingum í ríkisskuldabréfum evruríkjanna mun leiða til þess að fjármögnunarkjör verst stöddu evruríkjanna munu versna. Í þessu samhengi má nefna að hlutfall skulda gríska ríkisins af landsframleiðslu mun fara úr 120% í tæp 150% á næstu þrem árum vegna neyðarlánsins frá ESB.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK