Stjórnarmenn Fons krafðir um milljarða

Pálmi Haraldsson
Pálmi Haraldsson mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Skiptastjóri þrotabús Fons hefur ákveðið að krefja fyrrverandi stjórnarmenn Fons um þrjá milljarða króna í skaðabætur vegna milljarða láns Fons til huldufélagsins Pace Associates frá Panama. Hann hefur enn engar upplýsingar fengið um afdrif peninganna. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Hinn 24. apríl 2007 voru millifærðir þrír milljarðar króna af reikningi Fons á Íslandi á reikning félagsins Pace Associates Corp. hjá Landsbankanum í Lúxemborg, en Pace er skráð í Panama. Sex dögum síðar, hinn 30. apríl var gerður lánasamningur milli Pace og Fons þar sem lánið er fært til bókar og það afskrifað samdægurs í bókhaldi Fons.

Óskar Sigurðsson, hæstaréttarlögmaður og skiptastjóri þrotabús Fons, hefur í á annað ár verið að reyna að komast að því hvað varð um þessa peninga. Landsbankinn í Lúxemborg vill ekki veita þrotabúinu upplýsingar, hvorki um félagið né um hvernig þessum peningum var ráðstafað af Pace með vísan til bankaleyndar.

Gjalddaginn á láninu var 30. apríl 2010 og sendi skiptastjórinn bréf á heimilisfang Pace Associates og gerði kröfu um greiðslu. Engin greiðsla barst og nú hefur skiptastjórinn krafið þáverandi stjórnarmenn í Fons um greiðslu skaðabóta vegna þess tjóns sem þeir kunna að hafa valdið Fons með lánveitingunni en lánið var veitt án trygginga.

Hefur hann sent þeim bréf þess efnis, en um er að ræða þá Pálma Haraldsson, Jóhannes Kristinsson og Einar Þór Sverrisson, lögmann. Þeir eru krafðir sameiginlega um þrjá milljarða króna með vöxtum. Jóhannes var meðfjárfestir Pálma í Fons, en hann er einnig umsvifamikill í landbúnaði hér á landi sem og fjárfestingum í Lúxemborg.

Pálmi Haraldsson gaf þær skýringar í skýrslutöku hjá Óskari Sigurðssyni skiptastjóra að lánið til Pace, sem hafi verið vogunarsjóður, hafi átt að nota til að kaupa lóðir undir fasteignaverkefni á Indlandi. Ekki liggur fyrir hvort ráðist hafi verið í þessar fjárfestingar, samkvæmt frétt Stöðvar 2.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK